Íslenska landsliðið er komið til Þýskalands þar sem það mun æfa næstu daga fyrir síðustu tvo leiki undankeppni EuroBasket 2025. Fyrri leikur liðsins er gegn Ungverjalandi úti á fimmtudag áður en þeir loka undankeppninni með viðureign gegn Tyrklandi heima í Laugardalshöll komandi sunnudag.
13 leikmanna hópur Íslands fyrir lokaleiki undankeppni EuroBasket
Fyrir leikina tvo er Ísland í ansi góðri stöðu. Eru í þriðja sæti riðils þar sem þrjú efstu komast á lokamótið. Til þessa hefur Ísland unnið tvo leiki og tapað tveimur, en fyrir neðan þá eru Ungverjaland enn án sigurs eftir fyrstu fjóra leikina.

Möguleikar Íslands á að komast á lokamótið því ansi góðir fyrir þessa síðustu tvo leiki allra liða, en hér fyrir neðan má sjá hvaða sviðsmyndir það eru sem fleyta íslenska liðinu á lokamótið nú í vikunni.
Fyrsta:
Ísland vinnur annan hvorn leik sinn, gegn Ungverjalandi á fimmtudag eða heima gegn Tyrklandi á sunnudag.
Önnur:
Ísland tapar fyrir Ungverjalandi með innan við fimm stigum á fimmtudag og þá skiptir ekki máli hvort liðið vinnur eða tapar heima gegn Tyrklandi á sunnudag þar sem þá eiga þeir innbyrðisstöðuna gegn Ungverjalandi.
Þriðja:
Ísland tapar með meira en fimm stigum úti í Ungverjalandi á fimmtudag og heima gegn Tyrklandi á sunnudag. Ungverjalandi tekst hinsvegar ekki að vinna seinni leik sinn í glugganum gegn Ítalíu.