{mosimage}
Ísland er ein af fjórtán þjóðum í B-deild Evrópukeppni karla í körfubolta sem bítast um tvö laus sæti í A-deildinni. Þetta er í annað skiptið sem er spilað eftir þessu fyrirkomulagi en í síðustu keppni voru fjórir riðlar og aðeins sigurvegarinn komst þá upp úr riðlinum. Fyrsti leikur íslensku strákanna er gegn Finnum í Laugardalshöllinni á morgun miðvikudag og hefst hann klukkan 20.30.
Nú eru möguleikarnir kannski aðeins meiri en í síðustu keppni. Liðunum er að þessu sinni skipt niður í þrjá riðla, tvo með fimm liðum og einn með fjórum liðum. Sigurvegar riðlanna og það lið í öðru sæti sem nær bestu árangri komast í umspil um tvö laus sæti í A-deildinni. Keppnin fer fram í september næstu tvö árin en spilaðir eru fjórir leikir hvort ár. Í A-deildinni eru 16 þjóðir auk þeirra níu sem þegar hafa tryggt sér þáttökurétt í úrslitakeppni Evrópumótsins 2007. Til A-þjóða teljast því 25 sterkustu körfuboltaþjóðir Evrópu.
Ísland var í riðli með Danmörku og Rúmeníu í síðustu Evrópukeppni. Aserbadjan var einnig með en dróg lið sitt úr keppni. Íslensku strákarnir byrjuðu frábærlega í fyrsta leiknum í Danmörku og voru 26-10 yfir eftir fyrsta leikhluta en gáfu svo eftir og Danir gengu á lagið og unnu leikinn með tíu stigum (71-81). Fyrsti sigurinn í keppninni kom gegn Rúmenum (79-73) í seinni leik haustsins og því var ljóst að Ísland myndi spila úrslitaleik gegn Dönum á Íslandi árið eftir.
Íslenska liðið þurfti að vinna leikinn við Dani með 11 stiga mun eða meira til þess að eiga möguleika á að vinna riðilinn og komast í umspilið. Ísland var með frumkvæðið framan af leik, 19-12 yfir eftir fyrsta og með eins stig forskot eftir bæði annan (32-31) og þriðja leikhlutann (48-47). Síðasti leikhlutinn tapaðist hinsvegar með 18 situm (12-30) og þar með rann möguleikinn út í sandinn. Íslensku strákarnir rifu sig þó upp í næsta leik og tryggðu sér annað sætið í riðlinum með 8 stiga sigri á Rúmenum í Búkarest (80-72). Danir tryggðu sér síðan sæti í A-deild með því að vinna heimaleik sinn gegn Írum með 16 stigum eftir að hafa tapað með 14 stigum í Dublin.
Frétt af www.kki.is