spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHverjir lifa af niðurskurðinn í körfuknattleikshreyfingunni?

Hverjir lifa af niðurskurðinn í körfuknattleikshreyfingunni?

Ég held að allir geri sér grein fyrir því að körfuboltahreyfingin mun eiga úr minni fjármunum að spila næsta tímabil. Mörg íþróttafélög eiga erfitt með að standa við skuldbindingar vegna tímabilsins sem lauk núna óvænt en á sama tíma þarf að hefja undirbúning fyrir næsta tímabil því lífið heldur áfram. Undirbúning sem er erfiður þar sem fjárhagsstaðan er óljós.

Íþróttahreyfingin hefur kallað eftir því að ríkið komi og styðji við hreyfinguna vegna tjóns sem hreyfingin hefur orðið fyrir. Félög hafa sett af stað sýndarleiki til að fá áhorfendur til að styðja við deildir og ég held að körfuboltafjölskyldan sé búin að like-a og comment-a á facebook fyrir tugi þúsunda sem ætti að hjálpa félögunum á þessari stundu. Flestir gera sér grein fyrir því að þegar talað er um slæma fjárhagsstöðu liðanna þá er verið að tala um meistaraflokka þar sem æfingagjöld standa að mestu leyti undir kostnaði við barna- og unglingastarf liða.

En niðurskurði í starfi meistaraflokka fylgja ákveðnar hættur og þá sérstaklega gagnvart meistaraflokki kvenna. Við sjáum umræður um allan heim þar sem farið er yfir uppgang í íþróttum kvenna og að sá árangur sé nú í hættu þar sem niðurskurðurinn bitnar meira á deildum kvenna en karla þar sem ójafnt er gefið til leiks og því minna svigrúm fyrir niðurskurð. Þetta er tíðrætt í bestu deildum í knattspyrnu kvenna og mikil umræða er um hvort WNBA muni lifa af. Reyndar er þetta nú þegar byrjað hér á Íslandi en ÍR hefur dregið mfl.kvk í handbolta úr keppni vegna erfiðrar fjárhagsstöðu en á sama tíma eru fjölbreyttir leiðir farnar til að tryggja áframhaldandi rekstur karlaliðsins.

Fjármunir frá ríki og sveitarfélagi

Í mínum huga getur íþróttahreyfingin ekki óskað eftir peningum frá ríki og sveitarfélögum og skipt þeim fjármunum ójafnt niður á mfl.kk og mfl.kvk. Fjármunir sem koma frá ríki og sveitarfélögum er skattpeningar og því er eðlilegt og líklega skylt samkvæmt lögum að tryggja að þeir fjármunir fari ekki í að auka misrétti kynja innan hreyfingarinnar heldur eigi að styðja við frekara jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar. Í raun og veru ættu fjármunir frá ríki og sveitarfélögum frekar að fara til íþrótta kvenna til að vinna upp það forskot er íþróttir karla hafa gagnvart konum.

Fjármunir frá fyrirtækjum

Fyrirtæki sem velja að styrkja íþróttahreyfinguna eiga að fara fram á að styrkjum þeirra sé deilt jafnt milli karla og kvenna. Fyrirtæki sem ekki gera það eru að bregðast samfélagslegri ábyrgð sinni með því að ýta undir og styðja við áframhaldandi ójafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar. Það er í raun og veru ótrúlegt í dag að enn séu til fyrirtæki er velja að styðja eingöngu karlalið eða velja þá leið snúa blindu auga gagnvart þeirri ráðstöfun félaga.

Fjármunir frá einstaklingum

Hér ræður auðvitað frelsi einstaklingsins. Einstaklingar geta valið að styrkja hvort kyn fyrir sig eða að fjármunir fari jafnt á bæði kyn. En ég velti fyrir mér. Hversu mikið af þeim peningum sem einstaklingar eru að setja núna í körfuboltahreyfinguna vegna t.d. like og comment leiksins sem er í gangi mun skila sér í uppbyggingu á körfubolta kvenna?

Hvar skal skera niður?

Það er alþekkt að þegar ríki, sveitarfélög, fyrirtæki sem og fjölskyldur byrja að skera niður þá er fyrst metið hvaða kostnað er ekki hægt að skera niður og hvað flokkast undir svokallaða „fitu“ sem eru þessir hlutir sem eru þægilegir en kannski ekki nauðsynlegir. Þegar deildir byrja að skera niður í íþróttahreyfingunni þá verður að horfa til þess að flest meistaraflokks lið kvenna eru rekin án allrar fitu. Þ.e.a.s. rekstrarkostnaður þeirra er brota brot af rekstrarkostnaði meistaraflokks karla og því er ekki svigrúm til að skera meira niður í flestum kvennaliðum.

Tímamótin sem íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir núna mun skera úr um hvaða íþróttafélög raunverulega trúa á jafnrétti kynjanna og hvaða íþróttafélög einfaldlega eru með meistaraflokk kvenna vegna þess „að þeir neyðast til þess til að líta ekki illa út“ en nenna ekki að setja orku eða fjármuni til uppbyggingar kvennaliðsins.

Spurningin er – hvort er þitt lið að nýta tækifærið til að styðja enn frekar við jafnrétti í íþróttum eða mun þitt lið verða til þess að jafnréttisbaráttan innan íþróttahreyfingarinnar tekur skref aftur á bak á þessum tímum?

Bryndís Gunnlaugsdóttir skrifar

Fréttir
- Auglýsing -