Karl Jónsson skrifar
Eins og við vitum öll er útlendingaumræðan endalaus og þetta sumar engin undantekning. Fjölmörg teikn á lofti að vægi íslenskra leikmanna sé mun minna en í 4+1 eðlilega, en á hinn bóginn held ég að allir geti verið sammála um að gæðin voru meiri eftir 4+1. Sjónarmið landsbyggðarliða eiga svo alltaf rétt á sér, að það er erfiðara að manna lið úti á landi.
En ég hef um áratuga skeið átt mér þann draum að félög á landsbyggðunum og félög á stór-Reykjavíkursvæðinu ynnu meira saman þegar kemur að ungum leikmönnum. Á grundvelli einskonar „Feeder team“ stefnu. Það er vitað mál að liðin úti á landi missa frá sér leikmenn til stóru liðanna fyrir sunnan. Leikmenn vilja gjarnan mennta sig meira eftir framhaldsskólann og þá leitar hugurinn suður á bóginn yfirleitt. Nýjasta dæmið eru þeir efnilegu tvíburar frá Ísafirði sem gengu til liðs við Stjörnuna. Þetta er allt saman eðlileg þróun miðað við þá byggðastefnu sem er í landinu í dag.
En þessu fylgir jafnframt mikil ábyrgð að mínu mati. En hver er hún? Hver er t.d. ábyrgð Stjörnunnar gagnvart Vestra með tilkomu þessara leikmanna? Getur Vestri fengið leikmenn frá Stjörnunni í staðinn í „uppeldi?“ Hvað geta landsbyggðaliðin, sem búa til frambærilega leikmenn fyrir liðin syðra fengið í staðinn? Af hverju þarf þetta yfirleitt alltaf að vera bara í aðra áttina? Hér tel ég að hagsmunir allra geti farið saman.
Það væri mikill hagur í því fyrir landsbyggðarliðin að geta verið með 3-4 leikmenn hjá sér „í uppeldi“ úr stærri liðunum fyrir sunnan. Þar mætti finna leikmenn sem eru eins og staðan er í dag á jaðrinum að komast í æfingahóp meistaraflokka. Þessir leikmenn myndu ná sér í mikla reynslu og margar mínútur í meistaraflokki úti á landi og koma sterkari til baka. Landsbyggðarliðin væru með sterkari æfingahópa og þyrftu síður á erlendu vinnuafli að halda. Það væri hægt að koma upp pakka fyrir unga og efnilega leikmenn þar sem landsbyggðarliðin bjóða upp á skólavist í framhaldsskóla, heimavist og frítt fæði sem dæmi. Í einhverjum tilfellum eitthvað meira. Nú eða atvinnu, húsnæði og fæði, allt eftir því hvað viðkomandi leikmenn vilja.
En þetta kostar samvinnu. Ungir leikmenn þurfa að vita af því að þeir geti farið út á land og náð sér í menntun og körfuboltalega reynslu í leiðinni. Það er nákvæmlega ekkert samtal um það í dag, alla vega hef ég ekki orðið var við það. Hvernig stendur á því að menn hafa ekki lagt meiri vinnu í þetta? Það er engin hvatning í stóru klúbbunum og þeir virðast ekki sjá fyrir sér hagræðið í þessu fyrir þá sjálfa. Bæði að tengjast félagi úti á landi sem myndi þá „framleiða“ leikmenn fyrir viðkomandi klúbb og með því að senda leikmenn í hina áttina og fá þá betri til baka.
Af því ég minntist á Vestra þá fengu margir ungir leikmenn gott uppeldi þar fyrir mörgum árum síðan. Leikmenn sem fengur þar að leika lykilhlutverk. Nefni ég menn eins og Ólaf Ormsson, Ósvald Knudsen, Hrafn Kristjánsson, Svein Blöndal, Inga Frey Vilhjálmsson og Halldór Kristmannsson. Allt KR-ingar að vísu, nema Halldór, því á þeim tíma voru ákveðin vinatengsl á milli KFÍ og KR.
Eitt af því að kveða niður þetta endalausa útlendingarifrildi er að gera landslagið með þeim hætti að það sé ekki þörf á eins mörgum erlendum leikmönnum. En til þess þurfa félögin að taka þá meðvituðu ákvörðun að jafna stöðu liðanna á landinu m.a. með því að vinna meira saman og búa til áhugaverðar aðstæður fyrir unga og efnilega leikmenn sem þurfa á meira og stærra hlutverki að halda til að verða betri leikmenn.
Það er auðvitað ekki hægt að neyða neinn til að flytjast búferlum út á land til að spila körfubolta. En í sameiningu geta félög fyrir sunnan og úti á landsbyggðunum byggt slíka menningu upp og allir græða.
Ég skora á Stjörnuna að búa til samband við Vestra og vinna með þeim í að búa til þannig aðstæður fyrir 2-4 unga og efnilega leikmenn að þeir geti og vilji fara vestur til að öðlast meiri reynslu og bæta sig sem leikmenn. Og ekki vantar nú þjálfarann þar til að tryggja að svo geti orðið. Þetta gætu KR, Valur, Haukar, ÍR, Njarðvík, Grindavík, Keflavík og fleiri gert og búið til samstarf við Skallagrím, Snæfell, Tindastól, Þór Akureyri, Hött, Sindra, Hrunamenn, Hamar og jafnvel fleiri.
Með þessu móti vinna allir.