spot_img
HomeFréttirHvar eru þeir sem eru í körfuboltafjölskyldunni?

Hvar eru þeir sem eru í körfuboltafjölskyldunni?

Körfubolti er fyrir alla segir slagorðið. Körfubolti er þó auðvitað ekki fyrir alla en hann er að minnsta kosti fyrir alla þá sem hafa gaman að honum að ég tali nú ekki um þá sem stunda hann.
 
 
  Tilefni þessara vangaveltna er dræm aðsókn að landsleikjunum okkar nú í ágúst mánuði. Ég velti því fyrir mér hvar fólkið er sem spilar leikinn? Forráðamenn félaganna, yngri iðkendur, foreldrar þeirra………. Hvar eru þeir sem eru í körfuboltafjölskyldunni?
 
Auðvitað er það alltaf þannig að meiri stemning verður í kringum liðið þegar betur gengur en verr. Þegar verr gengur er viðbúið að hinn almenni áhorfandi láti sig vanta. Hjá okkur í körfunni gerist þetta þannig að kjarninn sjálfur hverfur.
 
Mig minnir að ákvörðun KKÍ um að setja landsliðið í frí á sínum tíma hafi þótt umdeild innan hreyfingarinnar. Fyrir þeirri ákvörðun lágu fjárhagslegar ástæður ef minnið svíkur mig ekki illa.
Þegar blaðinu er nú snúið myndarlega við og allt lagt undir og okkur boðið upp á alla okkar bestu menn í keppni við frábær lið vikulega bregður svo við að áhugi þeirra sem málið varðar hvað mest virðist skilyrtur. Það eru mikil vonbrigði.
 
Stjórn KKÍ og landsliðið sjálft á ekkert minna skilið en eindreginn stuðning okkar sem teljumst vera körfuboltafólk. Það er nefnilega merkisviðburður þegar landsliðið okkar spilar. Ekki bara fyrir þá leikmenn sem valdir eru hverju sinni eða þá sem starfa í stjórn KKÍ.
 
Það er stór stund fyrir okkur öll og mikilvægt að koma að þeim skilaboðum að það að spila í landsliðstreyjunni er virðingarvert afrek. Það er mikilvægt að búa til þann kúltúr hjá hverju félagi að landsleikur sé stór stund og stuðla að því að allir sem vettlingi geta valdið mæti á pallana.
Af hverju skyldu aðrir finna hjá sér hvöt til þess að mæta ef við sjálf skilum okkur ekki? Hvernig skilaboð sendum við ef við höfum ekki áhuga á því að auðsýna stuðning við okkur sjálf þegar mest liggur við?
 
Landsliðið okkar er ekki einkamál stjórnar KKÍ. Það lið sem nú stendur í ströngu viku eftir viku í keppni við stórþjóðir er liðið okkar allra.
 
Búum til alvöru menningu í kringum liðið og mætum til leiks og kennum hvort öðru og komandi kynslóðum að landsleikur í körfubolta er stór viðburður. Þannig smitum við út frá okkur og löðum enn fleiri að þeirri frábæru íþrótt sem körfubolti er.
 
Áfram Ísland
 
Rögnvaldur Hreiðarsson 
körfuknattleiksáhugamaður
Fréttir
- Auglýsing -