spot_img
HomeFréttirHvar er geðveikin?

Hvar er geðveikin?

 

Ekki oft sem undirritaður fer á ritvöllinn á slíkum nótum og hér að neðan, en við skulum prófa þetta. Ég sat í lest á leið til Tampere til að horfa á fótboltalandslið okkar etja kappi við heimamenn hér í Finnlandi og hugurinn fór af stað eftir að hafa farið í gegnum tvo leiki í okkar riðli gegn Grikkjum og Pólverjum.  Leikirnir hafa tapast báðir og tapast illa.  Engar afsakanir svo sem, strákarnir hafa átt slæma leiki og það kemur jú fyrir okkar allra bestu menn líka.  En að því sögðu þá eru ýmsar spurningar sem vakna.  T.a.m. finnst manni vanta frá Berlín þessa geðveiki sem einkenndi liðið á stundum þar. Þá tala ég ekki um þá geðveiki eins og hún er skilgreind í orðabókum. (Að gera það sama aftur og aftur með sömu útkomu)  Þvert á móti.

 

Heldur þá geðveiki sem kom andstæðingum frá risaþjóðum gersamlega í opna skjöldu.  Og á löngum stundum stóðum við jafnfætis þjóðum eins og Spánverjum (sem unnu keppnina)og hreint út sagt óheppnir að vinna ekki Ítali, Tyrki og Þjóðverja.

 

 

Eftir fyrstu tvo leikina höfum við verið með í fyrri hálfleik en í þeim seinni dettur botninn úr leik liðsins.  Hvernig má útskýra það? Eru leikmenn þreyttir?  Ekki í formi?  Við vitum það sem höfum fylgst með liðinu að okkar beittasta vopn tók lítinn sem engan þátt í undirbúnings leikjum fyrir mót.    Liðið er að sumu leiti laskað og ekki má gleyma, leikmenn tveimur árum eldri.  Að þessu sögðu væri ekki þá skynsamlegra að nýta fleiri leikmenn.  Rótera liðinu betur til að geta keyrt upp hraðann, komið í bakið á andstæðingum okkar, komið þeim á óvart með “geðveikinni”?

 

Á tímum í dag virtust nokkrir af okkar bestu mönnum einfaldlega þreyttir þegar á leið leikinn. Ekkert óvenjulegt við það þannig séð því það  tekur gríðarlega á okkar menn að verjast stórum og sterkum skrokkum andstæðinga okkar. Andstæðingum sem eru þeir allra bestu frá sinni þjóð.  Andstæðingar sem að öllu jöfnu okkar leikmenn eru ekki að takast á við.  Og aftur komum við að því að mögulega þurfi menn meiri hvíld?

 

Með tilkomu Tryggva Hlinasonar eykst vissulega vídd okkar liðs verulega. En hún gerir það ekki strax. Kappinn er ungur og á margt eftir ólært. Og þó…bíðum við, hann setti upp stórkostlegar tölur gegn risaliði Litháen í æfingaleik fyrir mótið.  Getum við mögulega nýtt hann meira?  Af heilum 216cm háum leikmanni þá er hann nokkuð snöggur upp völlinn þannig að hann hægir ekki mikið á liðinu.

 

Leikmenn gera kröfur til síns sjálfs og ætla sér sinn fyrsta sigur á lokamóti í Evrópukeppninni hér í Helsinki. Logi Gunnarsson segir í viðtali eftir leik í  dag þar sem spyrill reynir að draga uppúr kappanum að möguleikar á sigri í þessu móti hafi dvínað verulega eftir daginn, að liðið muni vel eftir Berlín þar sem þeir tókust á við stærri þjóðir og voru í bullandi séns. Afhverju ekki núna?

 

 

Kröfur okkar stuðningsmanna eru meiri en fyrir tveimur árum og við viljum sigur. Þetta vilja leikmenn líka eins og áður hefur komið fram og þeir vita best af öllum að þessi töp gegn Grikklandi og Póllandi voru of stór. Þetta er ekki munurinn á þessum liðum.  

 

Það er alltaf auðvelt að gagnrýna eftir leik og/eða í stúkunni. En mögulega mættu þessir mætu menn sem stýra liðinu einnig taka upp þessa geðveiki þegar illa gengur.  Setja “minni spámenn” inná þegar okkar helstu stólpar eru ekki að finna sína fjöl.   Það kunna allir að spila körfubolta í þessu liði og eru tilbúnir í að leysa af félaga sína þegar þeir eru þreyttir eða gengur illa.  Fara inn og fórna sér fyrir land og þjóð. Þeir sóru allir á mæður sínar fyrir mótið og hvað gerir maður ekki fyrir mömmu sína!!

 

Að öllu þessu sögðu hinsvegar þá vita þeir sem stýra liðinu töluvert meira um liðið og um körfubolta yfir höfuð en undirritaður.  En eitt á ég alveg örygglega sameiginlegt með þeim og leikmönnum liðsins, að frammistaða liðsins er undir pari það sem af er móti.  

Fréttir
- Auglýsing -