spot_img
HomeFréttirHvað má fara betur í kvennakörfunni?

Hvað má fara betur í kvennakörfunni?

12:29 

{mosimage}

Karfan.is fékk sendan eftirfarandi pistil fyrir skemmstu og hefur ritstjórn ávkeðið að birta þennan pistil þó greinarhöfundur vilji ekki koma fram undir nafni. Tekið skal fram að það verður ekki viðkvæðið á þessari síðu. Engu að síður eru körfuknattleiksunnendur hvattir til þess að taka upp fjaðurstafinn og senda greinar á karfan.is og þá er það frumskilyrði að skrifa undir nafni.  

Sá sem skrifar þessar línur hefur áhuga á íslenskum kvennakörfuknattleik. Nú þegar áramótin nálgast þá ætla ég að leyfa mér að setja niður nokkur orð á blað um kvennakörfuna. Þeir sem muna eftir leikjum í íslenskum kvennakörfuknattleik nokkra áratugi aftur í tímann gera sér grein fyrir því að framfarir hafa verið mjög miklar. Nýjustu dæmin um þetta eru m.a. leikur í efstu deild kvenna sem endaði 122-96, Evrópuævintýri Hauka síðustu tvö árin, frábær árangur yngri landsliða á Norðurlandamótum og í Evrópukeppni, þátttaka a-landsliðs í Evrópukeppni, frábært minniboltastarf Suðurnesjaliða, íslenskar stelpur að leika í Bandaríkjunum og Evrópu og svo framvegis. 

Nú er ár kvennakörfu hálfnað og í tilefni þess vil ég leyfa mér að nefna nokkra hluti sem mættu fara betur og/eða eru ekki í lagi í íslenskum kvennakörfuknattleik. Ætlunin er ekki að vera leiðinlegur eða að móðga neinn heldur að vekja körfuknattleiksfólk til umhugsunar og til athafna.  

Leikir þar sem annar aðili rótburstar hinn

Deildirnar eru bara tvær í meistaraflokki kvenna á Íslandi og í öllum yngri flokkunum eru riðlarnir bara tveir. Vegna þessa er oft mikill munur á getu liða í sömu deild/riðli. Ef úrslit leikja í efstu deild kvenna á þessu keppnistímabili eru skoðuð sjást nokkur skrautleg úrslit, t.d. 105-22 og 121-46. Alls hafa átta leikir í deildinni endað með meira en 49 stiga mun. Allir þeir sem hafa tapað leikjum mjög stórt, hvort sem þeir eru leikmenn, þjálfarar eða stuðningsmenn vita að það er ekki skemmtileg lífsreynsla. Svona tölur hafa einnig sést í 2. deild kvenna, en þar hafa þrír leikir unnist með mun á bilinu 41-61 stig. Einnig má nefna að í Powerade-bikar kvenna endaði einn leikur með 119 stiga mun og annar með 70 stiga mun.  

{mosimage}

Rótburstin í íslenskum kvennakörfuknattleik finnast ekki bara í meistaraflokki, heldur hafa nokkuð skrautlegir leikir verið leiknir í vetur í yngri flokkum stúlkna. Í minnibolta stúlkna (11 ára)  hafa sést úrslit eins og 86-0, 68-6, 62-6 og 70-4. Í 10 ára flokknum hafa sést úrslit eins og 40-6 og 51-11. Þessi úrslit geta vart rúmast innan minniboltahugsjónarinnar. Leikirnir hafa verið aðeins jafnari í 7. flokki en þar hafa sést úrslit eins og 69-12 og 59-18. Í 8. flokki eru mörg lið dugleg að pressa allan völl og þar hafa menn verið duglegir að lenda “góðum” úrslitum, sbr. tölur eins og 87-15, 86-13, 79-10, 63-6, 61-12 og 53-6. Svona er hægt að halda áfram, í 9., 10. og stúlknaflokki hafa sést úrslit eins og 88-2, 72-4, 66-6, 72-9, 93-47 og 74-12. 

Hvað rekur leikmenn og þjálfara góðra liða til að pressa andstæðing sinn til dauða og/eða spila þannig að sigur vinnist með 83 stiga eða 119 stiga mun? Er það grimmd/mannvonska, er verið að hefna sín vegna liðinna atvika, er það heimska eða eitthvað annað? Ekki veit ég svarið. Að mínu mati er engin ástæða sem getur réttlætt það að rótbursta andstæðing, það er engum til góðs, hvorki þeim sem sigrar mjög stórt né þeim sem verður niðurlægður. Rótburst eykur ekki útbreiðslu íþróttarinnar og hefur í mörgum tilfellum leitt til þess að leikmenn hætti að iðka/æfa körfuknattleik. 

Hvað er til ráða? Hvað á þjálfari að gera sem er að fara í leik sem hann veit að lið hans getur unnið mjög stórt? Skynsamur þjálfari hefur mörg vopn í höndum til að  koma í veg fyrir að lið sitt rótbursti andstæðing. Þessi vopn verða ekki nefnd hér.  

Pistilhöfundur vonar að á árinu 2007 muni sum lið taka betur á andstæðingum sínum og sýna þeim meiri sanngirni og samúð, þannig að tölur eins og nefndar hafa verið hér að framan sjáist í minna mæli og helst ekki. 

Lélegt minniboltastarf

Í langan tíma hafa félög eins og Grindavík, Njarðvík og Keflavík verið með mjög gott minniboltastarf hjá stúlkum. Síðustu ár hafa félög eins og Breiðablik, Fjölnir og KR verið að efla starf sitt. Auk þess hafa lið eins og Haukar, Hekla, Hamar/Selfoss, UMFH og Snæfell sent lið til keppni á Íslandsmóti í minnibolta. Síðan má nefna að lið eins og Hörður og Kormákur hafa mætt með stelpulið í mót eins og Hópbílamótið og Samkaupsmótið. 

Í vetur eru 12 félög sem senda lið í annaðhvort 10 eða 11 ára flokk minnibolta stúlkna. Á sama tíma sendir 21 félag lið til keppni í minniboltaflokkum stráka. Þessi tölfræði segir mikið. Það er nokkuð augljóst að ef þau 11 félög sem halda aðeins úti minniboltastarfi fyrir stráka stæðu fyrir sambærilegu starfi fyrir stelpur þá myndi íslenskur kvennakörfuknattleikur taka miklum framförum. Einnig gefur augaleið að ef öll körfuknattleikslið á Íslandi væru með jafn öflugt minniboltastarf fyrir stelpur og Suðurnesjaliðin hafa staðið fyrir í langan tíma þá væri íslenskur kvennakörfuknattleikur í góðum málum. 

Vandamál í Reykjavík

Síðustu ár hefur kvennakörfuknattleikur átt í vök að verjast í Reykjavík. Í dag er aðeins eitt Reykjavíkurlið í efstu deild. Einu sinn voru þau fjögur (ÍS, KR, Valur og ÍR). Þessi þróun skýrist ekki af óheppni eða tilviljunum. Hún er afleiðing þess að yngri flokka starf í nær öllum félögum í Reykjavík hefur verið í molum í mjög langan tíma. Í dag eru fimm félög í Reykjavík með æfingar fyrir stelpur (Ármann/Þróttur, Fjölnir, ÍR, Valur og KR). Þrátt fyrir þennan fjölda liða þá er starfið í heild í Reykjavík lélegt. Sem dæmi um þetta má nefna að í allri Reykjavík þá eru aðeins um 10 stelpur sem æfa körfuknattleik í 8. flokki. Ástandið er ekki betra í 7. flokki, þar er fjöldinn um 15. Fjöldinn í 9., 10., stúlkna- og unglingaflokki er svipaður. Þess má geta að í tveimur síðustu flokkunum er ekkert lið frá Reykjavík skráð í Íslandsmót. 

{mosimage}

Í nokkur ár hefur ekki sést leikmaður frá Reykjavíkurfélagi í yngri landsliðum kvenna. Í 18 manna hóp sem nýbúið er að velja hjá U18 er engin stelpa frá Reykjavík. Þrátt fyrir að nokkrar stelpur úr Reykjavík séu í 58 manna úrtakshópi hjá U16 þjálfara þá er ólíklegt að Reykvíkingur komist í 12 manna liðið. 

Einu sinni var ÍR stórveldi í íslenskum kvennakörfuknattleik og átti leikmenn í landsliðum og lið sem unnu stóra titla. Nú er svo komið að kvennastarf ÍR er í algjörum molum og í dag er ÍR með eitt stelpulið í keppni í Íslandsmóti.   

Lokaorð

Ég get haldið áfram að gagnrýna hluti sem betur mættu fara í íslenskum kvennakörfuknattleik, en segi stopp hér. Það er von mín að þeir sem koma að íslenskum körfuknattleik skoði kvennastarf innan félaga sinna á gagnrýninn hátt, greini hugsanlega vanda, fái gott fólk til að útbúa aðgerðaráætlun til að bæta starfið, framkvæmi þá áætlun með sóma og fái síðan að njóta uppskerunnar innan tíðar. 

Í flestri vinnu er nauðsynlegt að hafa góð og raunsæ markmið. Varðandi kvennakörfu á Íslandi þá hef ég alltaf haldið á lofti einu markmiði. Í hverju félagi ættu jafn margar stelpur að æfa körfu og strákar. Á okkar miklu jafnréttistímum er slíkt markmið eðlilegt, það er einfalt og ef íslensk körfuknattleikshreyfing vinnur vel að þessu markmiði þá munum við sjá enn meiri framfarir í kvennakörfunni á næstu misserum. 

Körfuknattleiksáhugamaður 

(Höfundur vildi ekki láta nafns síns getið)

Fréttir
- Auglýsing -