spot_img
HomeBikarkeppniHúsið hélt með naumindum gegn ljónunum

Húsið hélt með naumindum gegn ljónunum

Valsmenn fengu Njarðvíkinga í heimsókn í kvöld í 8-liða úrslitum VÍS-bikarkeppninnar. Valsarar virðast vera að byggja býsna stabílt hús á góðum grunni og því ekki víst að Njarðvíkingar fái lengi að njóta bikarsins sem þeir unnu sér inn í byrjun þessa tímabils….fyrir síðasta tímabil! En ljónin úr gryfjunni geta sannarlega fnæst og blásið af miklum móð og spurning hvort þeim takist að láta vinda blása um húsakynni gestgjafanna.

Kúlan: ,,Þetta verður rosalegur leikur! Hörku varnarbarátta og flott tilþrif inn á milli. Naumur gestasigur 80-83 í svaka leik!“ Sagði Kúlan sem er greinilega illa haldinn af sjálfstraustsleysi eftir ótrúlega andspádómsmennsku mánuðum saman.

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Hjálmar, Pablo, Pavel, Lawson

Njarðvík: Richotti, Basile, Fotis, Mario, Maciek

Gangur leiksins

Þrátt fyrir þá sönnu speki að vörn og sókn haldist í hendur var ljóst að það var sóknarleikur heimamanna sem var þeim til vansa á fyrstu mínútunum. Gestirnir fundu af og til leiðir til að koma boltanum ofaní, ekki síst Richotti sem var áberandi í byrjun. Ljónin komust í 4-11 eftir um fjögurra mínútna leik en þá tóku hjólin eitthvað að smyrjast hjá Valsmönnum, minnkuðu muninn í 11-15 þegar 3 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta en Finnur tók samt leikhlé til að ræða málin. Eitthvað hefur Finnur haft gáfulegt að segja því Valsmenn fóru hreinlega á kostum það sem eftir lifði fjórðungsins, tóku á 14-1 sprett og staðan 25-16 eftir einn.

Eitthvað fór að gusta inn um glufur á Valsheimilinu í öðrum leikhluta. Richotti, Fotis og Haukur settu allir þrist í fyrri hluta annars leikhluta og þristinum frá Hauki ekki síst vel tekið af Njarðvíkingum í húsinu. Forskot Vals hvarf hratt og örugglega, Haukur jafnaði leikinn með þristi þegar um 3 mínútur voru til leikhlés og kom svo Njarðvík yfir 35-37 í næstu sókn. Gestirnir leiddu 40-44 í háfleik og útlit fyrir spennandi leik.

 Hlíðarendapiltar mættu heldur betur með tæki og tól til húsaviðgerða í byrjun seinni hálfleiks. Gestirnir komu ekki svo mikið sem andvarpi inn um glugga og Valsmenn breyttu stöðunni í 50-44 með 10-0 spretti. Benni tók þá leikhlé þegar 6 og hálf voru eftir af þriðja og benti vafalaust sínum mönnum á að anda inn og svo út. Jafnræði hélst með liðunum út leikhlutann, Pablo var mjög áberandi sóknarmegin hjá Val en síður varnarmegin enda Basile að svara honum fyrir gestina. Staðan var 64-58 fyrir lokaleikhlutann.

Meistari Logi hóf þann fjórða með þristi en svo var eins og einhver ævintýraleg álög hafi komið öllum í húsinu í annarlegt ástand. Þegar 7:30 voru eftir af leiknum minnkaði Mario muninn í 68-63 en svo liðu hátt í 5 mínútur þar til fleiri stig litu dagsins ljós í leiknum! Svona fyrir utan nákvæmlega enga hittni beggja liða, augljóslega, mátti sjá allnokkuð af töpuðum boltum á báða bóga og það ekki alltaf hörðum varnarleika að þakka/kenna. Kári Jóns braut ísinn með gegnumbroti og kom stöðunni í 70-63 þegar tæpar 3 mínútur voru eftir. Það er gömul saga og ný að það er ekki góð hugmynd að verja forskot í körfubolta en þangað vilja hlutirnir einhvern veginn oft leita og í raun má segja að Valsmenn gerðu næstum því allt til að klúðra leiknum, opnuðu glugga og tóku úr lás. Sóknin var jafn léleg og hún var góð síðustu þrjár í fyrsta leikhluta, tapaðir boltar og ekkert flæði. Kristó átti síðustu stig Vals þegar ein og hálf var eftir af leiknum og kom Val í 72-66. Basile minnkaði muninn í 72-69 með körfu góðri  og Haukur bætti 2 stigum við nokkrum sekúndum síðar eftir að hafa stolið boltanum af kærulausum Pablo. Valsmenn fóru í sókn með 45 sekúndur á klukkunni sem endaði eins og flestar sóknir Vals á lokakaflanum, með gersamlega vonlausu skoti frá Pablo. Njarðvíkingar höfðu nægan tíma til að stela sigrinum í lokasókninni en gegnumbrot Richotti vildi ekki leka niður, niðurstaðan 72-71 sigur Vals í svolítið undarlegum en samt ágætum leik!

Menn leiksins

Kristó hefur spilað svolítið eins og eilífðarvél í vetur og var klárlega bestur á vellinum í kvöld. Það er kannski dæmigert að á hann hefur ekkert verið minnst hér að ofan en hann skilaði frábæru framlagi jafnt yfir allan leikinn, skoraði 25 stig og tók 12 fráköst. Pablo skilaði 21 stigi sem var mikilvægt fyrir liðið því stigaskor er kannski það eina sem vantar í spennandi lið Vals.

Hjá gestunum var Basile atkvæðamestur með 24 stig og 6 stoðsendingar. Haukur er að skríða inn í þetta hjá Njarðvík og skilaði ágætu verki í kvöld en aðrir hafa litið bjartari daga.

Kjarninn

Njarðvíkingar fá ekki að berja bikartitilinn augum mjög lengi enn, það er orðið ljóst. Það er svo sem ekkert meira um Njarðvíkurliðið að segja, bikarinn er bikarinn og bara áfram gakk í deildinni.

Valsmenn voru vissulega ansi nálægt því að klúðra þessum leik á lokamínútunum og undirritaður fullyrðir að það var ekki varnarleiknum um að kenna, gestirnir settu aðeins 71 stig á töfluna! Gegn 71 stigi duga 72 stig en tæpara verður það ekki. Hlíðarendapiltar verða í pottinum ásamt Íslandsmeisturum Þórs Þ., Keflavík og Stjörnunni þegar dregið verður í undanúrslitum. Það skiptir engu máli hvernig sá dráttur fer, undanúrslitin verða veisla!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Fréttir
- Auglýsing -