Þá er það seinni hluti hugleiðinganna um 16 liða úrslit NBA-deildarinnar og nú er komið að Vesturdeildinni. Sumir segja að úrslit vesturdeildarinnar sé ljós: Golden State Warriors vinni og standi að lokum uppi sem NBA meistarar annað árið í röð! Ef leikmenn Warriors hugsa svona þá held ég að sú spá fari fyrir lítið. Reikna má með nokkrum athyglisverðum viðureignum en ég held að úrslitin í fyrstu umferð verði nokkuð eftir bókinni.
Golden State Warriors (1) – Houston Rockets (8)
Upp með sópinn! – þetta verður auðveldasta viðureignin amk á pappírunum, Golden State rúllar yfir Houston eða ætti amk að gera það en lið með Jason Harden innanborðs á alltaf möguleika í jöfnum leik. Ég held bara að það verði engir leikir jafnir í þessari viðureign og spái því að Golden State vinni Houston léttilega og þurfi síðan að bíða lengi eftir næsta andstæðingi! Golden State með besta leikmann NBA deildarinnar í fyrra og í ár Steph Curry og annan leikmann sem gæti orðið númer tvö í því vali – Draymond Green – ásamt Klay Thomson og Harrison Barnes er bara mörgum númerum of stórt fyrir Houston liðið sem hefur verið ansi losaralegt í vetur. Rockets hefur tapað 11 af 12 síðustu leikjum gegn Warriors og ekkert sem bendir til að breyting verði þar á núna.
Golden State 4 – Houston 0
San Antonio Spurs (2) – Memphis Grizzlies (7)
San Antonio vinnur þessa seríu léttilega! Það þarf eiginlega ekki að ræða það neitt frekar, dísel vél Spurs mallar áfram og ellibelgirnir Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili standa allir fyrir sínu en nú er liðið borið uppi af Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge (sem kom til liðsins frá Portland fyrir tímabilið). Memphis liðið er eiginlega bara svipur hjá sjón eftir að hafa misst tvo af sínum sterkustu leikmönnum út tímabilið vegna meiðsla; Marc Gasol og Mike Conley. Spurs unnu allar fjórar viðureignir liðanna í vetur með yfir 12 stiga mun að meðaltali og hafa varla tapað fyrir Grizzlies undanfarin ár. Ég held að Spurs myndi vinna auðveldlega ef þeir væru með Memphis og tel því að þessi viðureign sé eiginlega búin áður en hún byrjar.
San Antonio 4 – Memphis 0
Oklahoma City Thunder (3) – Dallas Mavericks (6)
Þetta gæti orðið síðasta ár Russell Westbrook og Kevin Durant saman í OKC ef marka má sögusagnir á NBA göngunum ekki síst ef liðið nær ekki að komast í úrslit. Þeir tveir eru máttarstólparnir í liði Oklahoma og geta komið liðinu langt ef sá gállinn er á þeim. Aðal vandamál Oklahoma í vetur (fyrir utan meiðsli leikmanna) hefur verið að þeir eru ekki að klára leiki vel og hafa spilað frekar illa í lokafjórðungum í mörgum leikjum síðustu misseri. Það verður athyglisvert að sjá hvort það haldi áfram í úrslitakeppninni eða hvort liðið nær að halda fengnu forskoti. Dallas liðið er með aldna stórstjörnu sem aðal leikmanninn eitt árið enn Dirk Nowitzki er sá sem leitað er til í lok leikja til að klára leiki en einn mikilvægasti leikmaður liðsins er Deron Williams sem hefur leikið vel þegar á reynir og er með mikla reynslu sem ætti að nýtast liðinu vel. Hugsanlega verða það þjálfararnir sem ráða úrslitum í þessari viðureign Rick Carlisle sem er hokinn af reynslu og nýliðinn Billy Donavan sem kom úr háskólaboltanum fyrir þetta tímabil. Þessi viðureign gæti orðið mjög spennandi og farið alla leið í sjö leiki eða ójöfn og Oklahoma klárað í 4-5 leikjum – Vandi er um slíkt að spá en ég ætla að gerast djarfur og spá sjö leikja seríu!
Oklahoma City 4 – Dallas 3
Los Angeles Clippers (4) – Portland Trail Blazers (5)
“Litla liðið” í Los Angeles er orðið aðal liðið í borginni um þessar mundir og mikið sem skilur liðin tvö að þótt Lakers eigi örugglega eftir að rífa sig upp einhverntíman á næsta áratug eða svo og komast í úrslitakeppni að nýju (þar sem þeir eiga uaðvitað heima J). Clippers liðið van níu leikjum meira en Portland og það þrátt fyrir að vanta eina af aðal stjörnum liðsins Blake Griffin nánast frá jólum 2015! Griffin er enn að jafna sig á meiðslum á fæti og eftir handarbrot og spurning hvort hann nær að setja sitt mark á viðureignina sem stendur og fellur með Chris Paul fyrir Clippers og Damian Lillard hjá Blazers. Viðureign þeirra verður spennandi að fylgjast með enda tveir afskemmtilegustu leikmönnum deildarinnar sem hafa verið að spila alveg stórkostlega í vetur. Hjá Clippers skiptir DeAndre Jordan miklu máli enda frábær leikmaður sem rífur fjölda frákasta og skorar grimmt en getur varla hitt úr vítaskoti þótt honum væri borgað fyrir það (honum er náttúrulega borgað fyrir það en samt!) hvort Portland nýti sér “Hack a Jordan” aðferðina eða ekki er erfitt að spá en það er nauðsynlegt fyrir Clippers að DeAndre nýti vítaskotin betur ef þeir eiga að sigra Portland. Lillard og C. J. McCullum eru aðel mennirnir í Portland og ef þeir verða “heitir” í seríunni getur Portland stolið sigri. Ég hallast að því að Clippers hafi meiri breidd en Blazers og það muni hjálpa þeim í þessari viðureign.
Los Angeles 4 – Portland 2
Hannes Birgir Hjálmarsson