Ísfirðingurinn Hugi Hallgrímsson hélt vestur um haf til Bandaríkjanna síðasta haust og gekk til liðs við Angelina College sem leikur í NJCAA deildinni í Bandaríkjunum og er staðsett í bænum Lufkin í Texas. Síðasta tímabilið áður en hann fór út var Hugi hluti af liði Vestra í Subway deildinni og tímabilið á undan því er vann sér sæti í úrvalsdeildinni.
Hugi sem er nýorðinn 21 árs kom upp í gegnum yngri flokka Vestra og var meðal annars Scania Cup meistari með félaginu árið 2019. Auk Vestra hefur hann einnig leikið með Stjörnunni í Subway deildinni, ásamt því að hafa verið leikmaður allra yngri landsliða Íslands.
Tímabili Angelina Roadrunners er nú lokið, en af 30 leikjum náður þeir að vinna 14 í vetur. Hugi lék 27 leiki á tímabilinu og var í byrjunarliðinu í 14 leikjum þar sem hann skilaði 6 stigum og 3 fráköstum á tæpum 12 mínútum spiluðum að meðaltali í leik. Karfan heyrði í Huga og spurði hann út í þetta fyrsta ár í háskólaboltanum, stemninguna í Lufkin, boltann hér heima og hvað framtíðin bæri í skauti sér.
Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?
“Það hefur alla tíð verið markmið hjá mér að komast út í háskólaboltann. Ég er núna búin með freshman árið mitt í Angelina College sem er Junior College í Lufkin Texas. Þetta tímabil var svolítið upp og niður hjá mér þar sem ég þurfti dálítinn tíma til þess að aðlagast allt öðruvísi körfubolta en ég er bara nokkuð ánægður með þessa byrjun.”
Hvernig er stemningin í Lufkin,Texas?
“Maður finnur ekki mikið meiri country stemmingu en hérna og ég hef fengið að kynnast henni mjög vel. Lufkin er pínulítill bær hérna í Texas og þar sem ég er frá Ísafirði þá var frekar auðvelt að venjast því, hér þekkja nánast allir alla eins og heima. Ef að mig langar svo í borgarstemmingu þá er bara tveggja tíma keyrsla til Houston.”
Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?
“Það kom mér smá á óvart hversu ólíkur körfuboltinn er miðað við heima þar sem ég hef fylgst með háskólaboltanum nokkuð lengi. Það sem kom mér mest á óvart er hversu hratt er spilað, það voru kaflar í leikjum þar sem ég hélt að ég myndi kafna úr þreytu afþví að leikurinn var svo hraður, þegar leið á tímabilið fannst mér ég svo hafa vanist því ágætlega. Annað sem ég tók eftir allavega í deildinni sem ég spila í er hversu mikil svæðisvörn er spiluð, það skiptir engu máli hvort lið geti spilað maður á mann vörn eða ekki, þjálfarar hérna eru ástfangnir af svæðisvörn.”
Var ekkert erfitt að fara út og bæði treysta á að þú næðir að halda áfram að bæta þig þarna úti?
“Það var aldrei spurning hvort ég ætlaði út eða ekki og ég hef aldrei verið eins viss um ákvörðun í lífinu mínu eins og þá að fara til Bandaríkjanna. Hinsvegar þegar ég kom út og hlutirnir voru ekki eins og þeir áttu að vera þá komu hugsanir um hvort ég væri að taka réttar ákvarðanir varðandi ferilinn minn.”
“Áður en ég kom út hafði ég oft pælt í því hvers vegna svona margir íslenskir leikmenn ákvæðu að koma aftur heim vegna þess að fyrir mér var þetta draumurinn. Núna þegar ég hef svo farið í gegnum þetta sjálfur þá sé ég hlutina frá öðru sjónarhorni, þetta getur verið hrikalega erfitt sérstaklega þegar illa gengur, en á móti kemur er ég í besta umhverfi sem ég get ímyndað mér til þess að verða betri í körfubolta og ég er á skólastyrk.”
Hvernig fannst þér bæði þér persónulega og liðinu ganga á tímabilinu?
“Tímabilið hjá mér er búið en við töpuðum fyrsta leik í úrslitakeppninni. Liðið mitt var samansett af 13 freshman og einum sophomore (Juco er tveggja ára prógram) þannig að við vorum með mjög ungt lið. Þrátt fyrir það vorum við mjög hæfileikaríkt lið og við ætluðum okkur langt í einni bestu Juco deild Bandaríkjanna. “
“Báðir þjálfaranir mínir eru fyrrum leikmenn sem spiluðu í bestu deildum Evrópu og yfir tímabilið hef ég reynt að læra sem mest af þeim. Aðalþjálfarinn minn er mjög strangur og yfir tímabilið var lítið svigrúm fyrir mistök án þess að finna bekkinn, það tók mig því dágóðan tíma til þess að komast í takt við leikinn en ég komst á smá ról í síðustu leikjunum mínum. Ég var að vonast eftir betri frammistöðu hjá mér þetta tímabilið en maður verður bara að taka því sem kemur.”
Nú er bróðir þinn líka úti, er hann langt í burtu, hafið þið eitthvað náð að hittast?
“Hilmir er frekar langt í burtu en við höfum báðir náð að heimsækja hvorn annan. Hilmir kom í heimsókn til mín yfir jólin og við héldum upp á jólin saman með fjölskyldu herbergisfélaga míns og ég náði að heimsækja hann núna yfir spring break sem var að klárast (það var 16 tíma keyrsla).”
Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?
“Mér finnst eitthvernveginn aldrei hægt að spá fyrir hverjir verða meistarar en ef við horfum á líkur þá verð ég segja Valur back-to-back. Ég myndi hinsvegar ekki vilja fá Þór Þorlákshöfn í seríu ef ég væri Valur.”
Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?
“Eins og staðan er ég ekki búin að ákveða hvað ég geri á næsta tímabili. Ég á eftir að setjast niður með þjálfaranum mínum og ræða mína möguleika en það er allt opið hjá mér.”
Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?
“Markmiðið mitt er að komast á hærra level í háskólaboltanum en til þess að gera það verð ég að standa mig hérna. Núna er ég bara að einbeita mér að skólanum, lyftingum og bæta leikinn minn.”