Fámennt lið Ármenninga fékk skell á Flúðum í gærkvöldi og tapaði 101-66 fyrir Hrunamönnum.
Heimamenn leiddu allan leikinn og stungu af um miðbik fyrsta leikhluta er þeir breyttu stöðunni úr 18-14 í 31-19 fyrir lok hans. Eftirleikurinn var auðveldur og endaði leikurinn sem fyrr segir með 35 stiga sigri Hrunamanna.
Blake Walsman var stigahæstur hjá Hrunamönnum með 28 stig auk þess sem hann tók 15 fráköst. Sigurjón Ívarsson kom næstur með 15 stig, Orri Ellertsson setti 14 stig og Elís Arnar Jónsson skoraði 13.
Hjá Ármanni var Björgvin Snævar Sigurðsson langbestur með 21 stig og 12 fráköst en Þorleifur Baldvinsson kom næstur með 19 stig og Þorsteinn Hjörleifsson og Sigurður Waage Björnsson skoruðu báðir 10 stig.