spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn með sigur í kveðjuleik Árna Þórs

Hrunamenn með sigur í kveðjuleik Árna Þórs

Í lokaumferð deildarkeppni 1. deildar karla tóku Hrunamenn á móti öðru sunnlensku liði, Hamri frá Hveragerði. Hvergerðingar mættu til leiks án besta leikmanns liðsins á tímabilinu, bandaríkjamannsins Dareial Corrione Franklin. Hrunamenn tefldu hins vegar fram sterkustu leikmönnum síns liðs. Kent Hanson fór á kostum í 1. leikhluta og endaði leikinn líka frábærlega. Clayton Ladine, leikstjórnandi liðsins, átti sömuleiðis stórleik. Þeir félagar kvöddu Hrunamenn með stæl og skoruðu 74 af 106 stigum liðsins. Þeir hafa heillað alla í sveitinni með framkomu sinni utan sem innan vallar.

Leikmenn Hamars hittu ekki vel yfir svæðisvörn Hrunamanna. Aðrar aðgerðir gengu þó vel á köflum og gáfu þeir heimamönnum hörkuleik. Eftir dapurt upphaf liðsins hrökk Daði Berg Grétarsson í gang og kveikti í liðsfélögum sínum með góðum ákvörðunum, kraftmiklum aðgerðum og nokkrum skoruðum körfum. Í hálfleik stóðu leikar 50-40 heimamönnum í vil.

Hamarsmenn komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn enn frekar. Hrunamenn náðu vopnum sínum á ný, Hamar náði öðru áhlaupi en í lokafjórðungnum léku Hrunamenn mjög vel. Boltinn gekk hratt á milli manna, vörn var snúið í sókn á augabragði og Clayton var gjörsamlega óstöðvandi. Fyrir utan þau 40 stig sem hann skoraði var hann með 10 stoðsendingar. Hrunamenn unnu leikinn með 106 stigum gegn 95.

Kent og Clayton voru langbestir í liði heimamanna. Hamarsliðið var jafnt. Daði Berg átti góðan leik. Benoný og Alfonso skiluðu ágætu framlagi, Björn Ásgeir sömuleiðis. Þá var gaman að sjá aftur á vellinum, Hrunamanninn í liði Hamars, sjúkraþjálfara liðsins, Geir Helgason. Geir setti 14 stig á töfluna.

Eftir leikinn færðu leikmenn Hrunamanna þjálfaranum Árna Þór Hilmarssyni gjöf að skilnaði en Árni Þór hefur tilkynnt að hann muni ekki þjálfa liðið á næstu leiktíð. Áhorfendur á Flúðum risu úr sætum og hylltu þjálfarann, þakklátir fyrir það fórnfúsa starf sem hann hefur á mörgum undanförnum árum unnið fyrir félagið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -