spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrunamenn lögðu Fjölni í fjörugum leik

Hrunamenn lögðu Fjölni í fjörugum leik

Bæði Hrunamenn og Fjölnismenn hafa leikið vel undanfarið svo það mátti vænta skemmtunar í íþróttahúsinu á Flúðum þegar liðin mættust þar í kvöld. Leikurinn var hin besta skemmtun. Liðin buðu upp á fjörugan og fjölbreyttan körfubolta þar sem mikið var skorað og vel var tekist á undir eftirliti reyndra og góðra dómara, þannig að þótt hart væri tekist á sauð aldrei upp úr. Hrunamenn léku án fyrirliða síns Eyþórs Orra og Fjölnismenn söknuðu vitaskuld Dwayne Foreman sem hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar í vetur, en hann meiddist fyrir skömmu.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Fjölnismenn mættu með miklum ákafa í leikinn og létu Hrunamennina finna vel fyrir sér. Því þurftu Hreppakapparnir að mæta og gerðu það. Mirza Sarajljia lék varnarleikinn alveg við línuna sem dómararnir lögðu og steig stöku sinnum langt yfir hana. Hann náði þó að halda sér inni á vellinum allan leikinn og skila Fjölni heilum 40 stigum, þar af 8 af 8 vítum og 8 þristum úr 15 tilraunum. Kristófer Tjörvi sem hafði það hlutverk að reyna að hafa gætur á Mirza fékk 5. villuna undir lok leiks og Páll Magnús var sendur af velli eftir tvær óíþróttamannslegar villur.

Þriðja leikhlutann hóf Mirza með því að raða niður þriggja stiga skotunum en Hrunamenn svöruðu með kröftugu áhlaupi og bjuggu til ágætt forskot. Kent Hanson getur bæði hitt þriggja stiga skotum og brotið sér leið í gegnum varnirnar og hvort tveggja gerði hann allan leikinn. Kent skoraði 40 stig eins og Mirza og tók að auki 10 fráköst. Samleikur hans og Clayton Ladine skilaði líka mörgum körfum. Clayton lauk leik með 10 stoðsendingum og 30 skoruðum stigum.

Karlo Lebo, framherji Hrunamanna, meiddist snemma í leiknum og gat varla nokkuð beitt sér. Yngvi Freyr miðherji átti góðan leik. Hann sendi stoðsendingar, tók fráköst og skoraði bæði á póstinum og fyrir utan. Þórmundur Smári kom inn með ágætt framlag, Dagur átti stuttar en góðar innkomur og Óðinn Freyr setti niður þrista.

Hjá Fjölni var áhugavert að fylgjast með Ólafi Inga Styrmissyni stíga upp í seinni hálfleiknum. Ólafur Ingi átti stórleik, sérstaklega í seinni hálfleik og skoraði alls 25 stig sem hann sótti oftast sjálfur með því að vinna stöðu undir körfunni og skila boltanum rétta leið. Þá var gaman að fylgjast með Daníel og Karli sem fá traust þjálfaranna og mikinn spilatíma þrátt fyrir ungan aldur. Daníel sendi 10 stoðsendingar í leiknum og skoraði 15 stig, Karl var með 13 stig.

Fjölnismenn fundu loksins í síðasta fjórðungi leið til að hægja á ferð Hrunamannanna þegar þeir pressuðu allan völlinn og settu tvöfaldar hindranir á Clayton leikstjórnanda. Það gerðu þeir býsna vel og náðu nokkrum stoppum þannig. Þegar tveir varnarmenn gæta eins sóknarmanns er einhverstaður laus maður og Fjölnir valdi að hafa Kristófer Tjörva opinn. Kristófer þakkaði kurteislega fyrir það og setti fleiri skot niður en ekki og Kent hélt áfram að skora og skora. Hrunamenn höfðu sigur 116-107 í bráðfjörugum og skemmtilegum körfuboltaleik.

Tölfræði leiks

Önnur úrslit kvöldsins

Fréttir
- Auglýsing -