Í kvöld áttust við í 1. deildinni Hrunamenn og Álftanes. Leikið var á Flúðum. Hrunamenn hafa í vetur leikið hin ýmsu afbrigði svæðisvarnar. Í kvöld brá Árni Þór, þjálfari Hrunamanna, út af vananum og liðið spilaði agressíva maður-á-mann-vörn sem Álftnesingarnar réðu ekkert við fyrr en undir lok leiksins. Yngvi, Kent og Karlo, stóru mennirnir í liði heimamanna, stigu menn vel út og hirtu fráköstin sem voru nokkuð mörg því Álftnesingarnir hittu illa í fyrri hálfleik. Kristófer Tjörvi var eins og plástur á Ragnari Jósef í liði Álftaness og hélt honum algjörlega niðri og Eysteinn Bjarni náði sér ekki á strik heldur. Cedrick Bowen var reyndar öflugur fyrir Álftanes og Sinisa Bilic góður á varnarhelmingi.
Karlo Lebo fór á kostum fyrir Hrunamenn á báðum endum vallarins. Krafturinn var rosalegur! Hann spilar af fullum krafti allan tímann. Karlo tók 7 fráköst og skoraði 30 stig. Varnarlega vinnur hann líka alls konar vinnu sem tölfræðin nær ekki yfir. Á meðan hann heldur sig við þau verk sem Árni Þór biður hann um að sinna en lætur önnur verk eiga sig er hann frábær leikmaður. Karlo fær reglulega hvíld þar sem Árni Þór fer yfirvegað yfir málin með honum utan vallar. Þannig ná þeir í sameiningu að hámarka afköstin! Það eykur sóknarþunga liðs Hrunamanna að hafa endurheimt Kent Hanson úr meiðslum. Kent er fjölhæfur og ógnar vörninni bæði með skotum og gegnumbrotum. Clayton Ladine stjórnar spilinu og sendingar hans skapa góð færi fyrir liðsfélagana. Í kvöld átti Clayton 13 stoðsendingar og hann skoraði 21 stig. Á hálfleik stóðu leikar 50-34 Hrunamönnum í vil.
3. leikhlutinn hefur verið Hrunamönnum erfiður í mörgum leikjum tímabilsins. Eftir að hafa notað mikla orku í fyrri hálfleik hefði mátt búast við að eitthvað færi að láta undan hjá Hrunamönnum eftir leikhléið. Það gerðist þó ekki fyrr en 3. leikhluti var að verða búinn. Fyrst um sinn héldu Hrunamenn áfram að auka forskot sitt og mesta forystan var 21 stig. Það var ekki fyrr en Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftaness, sendi Unnstein Rúnar Kárason inn á völlinn að eitthvað jákvætt fór að gerast í spili Álftnesinga. Unnsteinn byrjaði á því að setja niður tvær þriggja stiga körfur og svo varðist hann Clayton og Kristófer af mikilli ákefð og með ágætum árangri. Unnsteinn náði að kveikja neistann sem liðið þurfti. Í kjölfarið hófst áhlaupið sem stóð yfir allt til loka leiksins.
Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi. Hrunamennirnir Yngvi og Kent voru nánast alveg sprungnir, Clayton var farinn af velli með 5 villur, Kristófer lagðist á sjúkrabekkinn og Karlo var farinn að haltra. Á meðan var Unnsteinn í banastuði, Cedrick góður, Sinisa farinn að finna sig gegn Karlo og Ragnar Jósef loksins kominn í gírinn. Álftnesingar náðu að jafna leikinn og komast yfir þegar um tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru það ungu mennirnir í liði Hrunamanna sem komu félaginu sínu til bjargar á ögurstundu. Fyrst hitti Páll Magnús þriggja stiga skoti og svo stal Eyþór Orri boltanum af Álftnesingum. Álftnesingar þurftu að brjóta og völdu örþreyttan Kent Hansson til að senda á vítalínuna. Kent missti bæði vítaskotin og spennan hélt fram á síðustu sekúndur leiksins. Kent fór tvívegis á línuna til viðbótar og ýmist hitti eða ekki en nógu mörg skot rötuðu rétta leið til þess að Hrunamenn hefðu sigur.
Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson