Njarðvíkingar hafa sagt upp samningi sínum við Bandaríkjamanninn Antonio Houston og hafa ráðið til sín Christopher Smith sem gerði gott mót með Fjölni á síðustu leiktíð. Smith gerði 23,4 stig og tók 12,0 fráköst að meðaltali í leik með Fjölni á síðasta tímabili. Sigurður Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga sagði í samtali við Karfan.is að Houston hefði ekki verið sá leikmaður sem Njarðvíkurliðið þurfti.
,,Houston kom hérna og var lengi að komast í gang, hann stóð sig ágætlega síðustu tvo leiki en hann er ekki leikmaður sem ég vil hafa í liðinu, hann spilaði t.d. ekki nægilega góða vörn ásamt mörgu öðru,“ sagði Sigurður en Houston var engu að síður stigahæsti leikmaður Njarðvíkinga í síðustu tveimur leikjum hjá grænum sem báðir voru sigurleikir, gegn ÍR og Snæfell. Houston kveður Ljónagryfjuna með 18,7 stig að meðaltali í leik.
,,Það hefur orðið nett breyting á liðinu hjá okkur með tilkomu Christopher Smith en hann verður ekki í alveg eins hlutverki hjá okkur og hjá Fjölni í fyrra. Við munum nota hann þar sem hann er sterkastur og erum í raun bara að hugsa um okkar lið og samkeppni í leikstöðum og að nýta okkar styrkleika,“ sagði Sigurður sem vonast til að Smith verði kominn til landsins fyrir næstu umferð.
,,Hann er væntanlegur til landsins núna í lok vikunnar og það lítur út fyrir að hann nái næsta leik og stefnan er að hafa hann með gegn Stjörnunni,“ sagði Sigurður en Njarðvík og Stjarnan mætast í Ásgarði í Garðabæ þann 25. október í fjórðu umferð Iceland Exrpess deildarinnar en þessi lið drógust einmitt saman í 32 liða úrslit Poweradebikarsins í dag.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Smith fór mikinn með Fjölni í fyrra og bætist nú í þéttan teig Njarðvíkinga ásamt Friðriki Stefánssyni, Páli Kristinssyni og Agli Jónassyni.