spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHrifsuðu þriðja sætið á ögurstundu

Hrifsuðu þriðja sætið á ögurstundu

Leikur Þórs og Keflavík í lokaumferð Bónusdeildar kvenna í körfubolta var frábær skemmtun frá fyrstu mínútur og allt til loka. Bæði lið söknuðu sterkra leikmanna þ.e. hjá Þór voru þær Esther Fokke og Natalia Lalic fjærri vegna meiðsla og þá var Adda Sigríður fjarri. Hjá gestunum lék bandaríski leikmaður þeirra ekki í kvöld og munar um minna hjá báðum liðum. 

Leikurinn byrjaði rólega og fyrstu mínúturnar voru gestirnir örlítið sterkari og eftir þriggja mínútna leik var forskot gestanna orðin sex stig 6:12. Keflavík leiddi þar til að þrjár mínútur lifðu leikhlutans en þá náði Þór forystunni í fyrsta sinn í leiknum 24:20 og þegar leikhlutinn var úti var munurinn sem fyrr 28:22. 

Framan af öðrum leikhluta hafði Þór ágæt tök á leiknum og þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður hafi Þór náð 12 stiga forskoti 40:28. Þegar hér var komið við sögu tóku Keflvíkingar góðan sprett og skoruðu 11 stig gegn 4 Þórs. Gestirnir unnu leikhlutann með einu stigi 16:17 og staðan í hálfleik 44:39.

Hjá Þór var Amandine atkvæðamest í fyrri hálfleik með 20 stig og þær Maddie og Eva Wium 8 stig hvor. Hjá gestunum var Sara Rún komin með 18 stig og næst henni kom Katla Rún með 5 stig. 

Þriðji leikhlutinn var sveiflukenndur þar sem Þór hafði um tíma 11 stiga forskot en Keflvíkingar sýndu mikla seiglu og kroppuðu reglulega í forskotið og pössuðu að missa heimakonur ekki of langt fram úr sér. Þór vann leikhlutann 24:20 og staða þegar lokaspretturinn hófst 68:69.

Lokaspretturinn var hreint ótrúlegur og ljóst að gestirnir ætluðu ekki að gefa neitt eftir í baráttunni um þriðja sætið. Gestirnir tóku að saxa á forskotið og hver þristurinn á fætur öðrum rataði rétta leið og þegar um þrjár mínútur lifðu leiks hófst mikill darraðardans. Keflvíkingar höfðu þá komið muninum niður í þrjú stig 83:80 og svo jöfnuðu þær 83:83. Aftur náði Þór forystunni 85:83 og þegar 45 sekúndur voru eftir höfðu gestirnir jafnað á ný 88:88. Spennan var í hámarki og þegar 9 sekúndur voru eftir kom Sara Rún sínum konum yfir 88:90. Sá tími sem eftir var dugði ekki heimakonum til að jafna eða komast yfir og í síðustu sókn Þórs átti Amandine mislukkaða sendingu og tíminn rann út og Keflvíkingar fögnuðu sigri og þriðja sætið er þeirra.

Keflvíkingar léku frábærlega í fjórða leikhluta og hittni þeirra frábær t.d. skoruðu þær 6 þriggja stiga körfur í leikhlutanum sem þær unnu 20:31 og leikinn með tveimur stigum 88:90. Sigurinn var gestanna en hefði allt eins geta endað hinum megin en lukkan var með gestunum í liði.

Framlag Keflvíkinga: Sara Rún 28/9/4, Anna Lára 15/9/4, Agnes María 14/3/1, Anna Ingunn 9/1/1,Bríet Sif 8/1/2, Thelma Dís 8/2/6, Katla Rún 5/2/2, Julia Niemojewska 3/6/4 og Eva Kristín 0/1/0, 

Framlag Þórs: Amandine 31/4/4, Eva Wium 23/4/3, Madison Anne 19/24/6, Emma Karólína 8/2/0, Hanna Gróa 6/8/5, Heiða Hlín 1/2/0 og Katrín Eva 0/2/0.

Nánari tölfræði

Gangur leiksins: 28:22 / 16:17 (44:39) 24:20 / 20:31 = 88:90   

Umfjöllun, myndir / Palli jóh

Fréttir
- Auglýsing -