Mikið er um hræringar í NBA deildinni alltaf rétt fyrir nýliðavalið og ætlar þetta árið ekki að verða nein undantekning á því. Nýliðavalið er furðudjúpt þetta árið og vel hlaðið af hávöxnum leikmönnum.
Mest umræðan er í kringum þá þrjá sem talið er að verði valdir fyrst. Líklegast þykir að Karl Anthony Towns verði valinn í fyrsta valrétti af Minnesota Timberwolves en það er hulin ráðgáta hvert Los Angeles Lakers ætla með sinn valrétt sem er annar í röðinni. Lengi vel lá fyrir að Kentucky-strákurinn Jahlil Okafor færi til Lakers en áhugi þeirra hefur færst mikið til yfir á D'Angelo Russell. Fari hann ekki til Lakers eru góðar líkur á því að Philadelphia 76ers velji hann nr. 3.
Nokkrar leikmannahreyfingar hafa átt sér stað nú þegar liðin leggja línurnar fyrir valið. Lance Stephenson var sendur frá Charlotte Hornets til Los Angeles Clippers fyrir Matt Barnes og Spencer Hawes. Orlando Magic sendu Luke Ridnour til Memphis Grizzlies fyrir réttinn á Litháanum Janis Timma. Hornets sendu svo Barnes til Grizzlies fyrir Ridnour sem var svo kominn til Oklahoma City Thunder þegar þetta er skrifað. OKC sendu Jeremy Lamb til Charlotte í skiptunum. Ridnour er með ótryggðan $2,75 milljóna samning sem það lið sem endar með hann getur afskrifað úr bókum sínum ef samningnum er sagt upp fyrir mánaðamótin.
Portland Trail Blazers búa sig undir að missa LaMarcus Aldridge frá sér og skiptu Nicolas Batum til Charlotte Hornets fyrir Gerald Henderson og Noah Vonleh. San Antonio Spurs, Los Angeles Lakers og Dallas Mavericks hafa verið orðaðir við Aldridge sem er með lausan samning.
Kevin Love nýtti uppsagnarákvæði í samningi sínum við Cavaliers og ætlar að kanna markaðinn. Boston Celtics og Los Angeles Lakers eru á höttunum eftir honum, auk eflaust flestra annarra liða í deildinni. LeBron James þarf að ákveða sig á mánudaginn hvort hann gerir slíkt hið sama og verður þá einnig með lausan samning. Cavaliers hins vegar tryggðu sér þjónustu Timofey Mozgov næsta árið en liðið hafði valrétt á síðasta ári samningsins sem hljóðar upp á $4,95 milljónir.
Nýliðavalið hefst kl. 23:00 í kvöld.