Hreinn Gunnar Birgisson hefur gert eins árs samning við Hött á Egilsstöðum en Hreinn segir þar með skilið við Tindastól í bili og mætir uppeldisfélaginu í 1. deild á næstu leiktíð þar sem Stólarnir féllu á síðasta tímabili úr Domino´s deildinni. Þetta staðfesti Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar í samtali við Karfan.is í dag.
Hreinn var með 4,2 stig og 2 fráköst að meðaltali í leik með Tindastól í Domino´s deildinni síðasta tímabil. „Það er gríðarlegur styrkur í Hreinsa, hann mun koma með reynslu og þekkingu í liðið þó ungur sé. Ég tel að hann geti gert frábæra hluti með okkur,“ sagði Viðar Örn sem einnig mun halda þeim Austin Magnúsi Bracey og Frisco Sandidge en sá síðarnefndi var með 24,2 stig og 13,9 fráköst að meðaltali í leik með Hetti síðasta tímabil.
Höttur hafnaði í 4. sæti 1. deildar á síðustu leiktíð og mættu Hamri í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem Hvergerðinar höfðu betur en féllu svo út fyrir Valsmönnum sem fóru upp í Domino´s deildina ásamt Haukum.
Mynd/ Hjalti Árnason – Hreinn Gunnar (t.h. á mynd) leikur með Hetti á næsta tímabili í 1. deild karla en á myndinni fagna hann og Helgi Freyr Margeirsson sigri á Fjölni í Domino´s deildinni síðasta tímabil.