spot_img
HomeFréttirHreggviður: Sóknin selur miða en vörnin skilar titlunum

Hreggviður: Sóknin selur miða en vörnin skilar titlunum

 
Fannar Ólafsson var í byrjunarliði KR í kvöld er vesturbæingar skelltu Stjörnunni 101-81 í þriðja leik liðanna í úrslitum Iceland Express deildar karla. Þetta þýddi að Hreggviður Magnússon var kominn aftur á bekkinn og því í sitt reglubunda hlutverk hjá KR, sterkur sjötti maður og það var hann í kvöld með 13 stig af tréverkinu á tæpum 16 mínútum.
,,Við vitum það að við erum besta liðið á Íslandi í dag, við þurfum bara að sýna það en í síðasta leik þá skiluðum við ekki þeim varnarleik sem við eigum inni en í seinni hálfleik í kvöld þá sýndum við meistaratakta varnarlega og það er nákvæmlega það sem þarf til að vinna stóra titilinn,“ sagði Hreggviður en KR hélt Stjörnunni m.a. í 9 stigum í þriðja leikhluta.
 
,,Sóknin selur miða en vörnin skilar titlunum og við ætlum okkur bara að klára þetta í næsta leik en ég tel mig samt vita að Stjarnan sé ekkert að fara að gefast upp. Þeir sýndu góða takta hérna á köflum en KR er betra liðið og það sáu allir hér í dag,“ sagði Hreggviður en er hann ánægður með hvernig KR hefur svarað þeirri óvissu sem ríkt hefur í kringum Fannar Ólafsson og hans meiðsli?
 
,,Já vissulega, við erum með breiðan hóp og gott lið svo það kemur maður í manns stað. Fannar gefur okkur andlegan styrk og er gott fordæmi fyrir okkur hina og afar gott þegar hann getur skilað mínútum,“ sagði Hreggviður en við hverju býst hann í leik fjögur úti í Garðabæ?
 
,,Stjörnumenn mæta dýrvitlausir í leik fjögur enda búnir að tapa á okkar heimavelli mjög stórt í tvö skipti en náðu að berja fram góðan sigur á sínum eigin heimavelli. Pressan er samt á þeim enda er þetta búið spil fyrir þá ef þeir ná ekki sigri í næsta leik.“
 
Fréttir
- Auglýsing -