Stjarnan hóf þessa leiktíð eins og best verður á kosið. Sigur á Íslandsmeisturum KR í fyrsta leik sem sýndur var beint í sjónvarpi og beðið með mikilli eftirvæntingu. Í næstu leikjum á eftir virtist sem liðið hefði ekkert meira að sanna eftir að björninn hafði verið unninn í fyrsta leik og hafi ákveðið að halla sér aftur og slaka á. Tap gegn Tindastól á heimavelli, tap fyrir ÍR í Hellinum og naumur sigur á FSu á heimavelli í leik sem var jafn allan tímann og illa afgreiddur af gestunum í lokin. Stjarnan sýndir hins vegar ÍR-ingum í tvo heimana í 32-liða úrslitum Powerade bikarsins með 27 stiga sigri í Ásgarði.
Að framansögðu velta margir því fyrir sér hvort bikarmeistararnir séu tilbúnir í titilvörnina miðað við leik liðsins að undanförnu. Karfan.is tók Hrafn Kristjánsson, þjálfara Stjörnunnar í stutt spjall um það.
"Liðið er klárt. Við búum að því að vera það ferskast í minni allra liða hvernig það er að fagna sigri í Höllinni. Það er góð tilfinning sem okkur langar að upplifa aftur sem allra fyrst. Það ætti að vera nægjanleg mótivering fyrir komandi verkefni."
En hvað er það þá sem hefur verið að flækjast fyrir þessu sterka liði Stjörnunnar undanfarið?
"Það getur oft verið erfitt að greina hvað veldur þegar lið mæta til leiks á hælunum, hvað þá þegar það gerist í tveimur eða fleiri leikjum í röð en við." Hrafn telur þó liðið vera búið að leiðrétta það sem þarf á þessari stundu, "þó kannski sé ekki allt gefið upp varðandi það."
Hrafn segir það morgunljóst að ákveðið baráttuþrek og liðssamvinnu hafi vantað framan af, "og Þess utan fannst manni ekki alveg tenging milli þess sem lagt var upp með og þess sem síðan var framkvæmt þegar á hólminn er komið. Hvort sem það er kallað 'eggjakaka' eða hvað annað skiptir það máli að allir séu á sömu blaðsíðu í liðsíþrótt og við fórum bara aðeins yfir uppskriftina aftur."
Stjarnan mætir Grindavík í Mustad-höllinni í Grindavík í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins 5.-7. desember nk.