Hrafn Kristjánsson hefur verið að gera mjög flotta hluti sem þjálfari á Álftanesinu. Hann segir að það sé metnaður hjá félaginu sem vilji búa til körfuboltamenningu á Álftanesi. Karfan heyrði í kappanum.
Hrafn er spurður hvernig honum lítist á 1. deildina í ár, og hvort hún sé mögulega að verða sterkari og sterkari?
„Það er erfitt að segja að manni lítist á einhverjar deildir nákvæmlega á þessum tímapunkti þegar ekkert er verið að spila, en styrkur deildarinnar er mjög mikill. Það er talað um á hverju ári að nú sé 1.deildin að veikjast, en hún virðist styrkjast með hverju árinu. Það eru mun fleiri lið í deildinni þetta tímabil sem gera tilkall að fara upp í úrvalsdeild og mikill fjöldi erlendra atvinnumanna sem liðin eru að tefla fram í vetur,“ segir Hrafn sem telur erfitt að spá fyrir um hvaða lið komi til með að berjast um toppinn.
„Fyrirfram myndi ég þó ætla að Hamar og Breiðablik komi mjög sterk inn í mótið. Þar fyrir neðan eru ansi mörg lið sem gætu hæglega velgt þeim undir uggum, ef allt gengur upp. Ég myndi setja okkur Álftnesinga þar ásamt nokkrum öðrum. Til dæmis mætir Sindri til leiks með sex frambærilega erlenda leikmenn og virðast mjög vel þjálfaðir og til í þennan slag. Sú staðreynd að þrjú lið af níu mega ekki æfa núna á meðan þessi pása stendur yfir hjálpar þeim lítið og hefur vonandi ekki mikil áhrif þegar leikur hefst á ný.“
Hrafn segir markmiðin hjá sér og félaginu í heild vera margvísleg.
„Við erum að reyna að byggja upp metnaðarfullt starf á Álftanesi, og búa til einhvers konar körfuboltamenningu þar sem íbúar mæta á körfuboltaleiki og skemmta sér. Það gerist ekki nema við teflum fram sterku og samkeppnishæfu liði. Við fengum til liðs við okkur nokkra sterka leikmenn í sumar sem eru ekki í þessu nema til að vinna alla leiki sem farið er í, og það er í raun okkar markmið; við erum ekki að gefa út markmið opinberlega sem ná eitthvað lengra en það.“
Munum við mögulega sjá Álftanes í úrvalsdeild og mögulega festa sig í sessi?
„Það er ekkert ómögulegt í þessum heimi,“ segir Hrafn og bætir við: „Við teljum okkur vera að byggja liðið og félagið upp á mátulegum hraða og erum ekki að taka of stór skref í einu. Það hefði til að mynda mögulega ekki verið hollt fyrir lið síðasta veturs að fara upp í úrvalsdeild á þeim tímapunkti. Þetta snýst um marga þætti, ekki síst fjárhagslega. Það fyrsta sem þarf að gerast er að byggja upp sterkan leikmannahóp sem kemur til með að halda áfram og þarf ekki að endurnýja algerlega hvert sumar. Okkur er að takast ágætlega í því verkefni. Þegar því verkefni er lokið þarf að tryggja fjárhagslegan grunn sem gerir félaginu kleift að taka slaginn í deild þeirra bestu.“
Hvernig er staðan á yngri flokkunum á Álftanesi?
„Álftanes mun halda úti starfi í yngstu árgöngum, minnibolta, 7. og 8. flokki, auk þess sem Álftanes og Stjarnan tefla fram mjög sterkum, sameiginlegum unglingaflokki. Þetta starf hjá okkur er mjög ungt og við byggjum þetta upp hægt og rólega.“
Aðeins að úrvalsdeildinni, Hrafn – hvaða lið telur þú að berjast um toppinn og hvaða lið berjast við falldrauginn?
„Við fyrstu sýn virðist mér að Stjarnan, Tindastóll, Keflavík og jafnvel ÍR geri ansi sterkt tilkall til toppbaráttunnar, og KR og Valur gætu alveg blandað sér í þá baráttu. Það eru enn fleiri spurningamerki varðandi KR og Val, en ef það spilast vel úr leikmannamálum þar þá verða þau einnig mjög sterk.“
Hrafn segir að það sé erfiðara að lesa í botnbaráttuna: Í raun er það bara mjög erfitt að stimpla eitthvað lið sem fallkandídat á þessum tímapunkti. Ef ég er pressaður í að nefna einhver lið sýnist mér að Þór Akureyri, Höttur og Haukar gætu mögulega lent í einhverjum vandræðum, en það er alveg eins líklegt að þau troði sokk upp í mig og komi mjög á óvart.“
Hvað segir Hrafn um stöðu körfuboltans á Íslandi í dag?
„Staðan varðandi unga leikmenn og atvinnumenn erlendis er í ágætis málum, og sjálfsagt að líta björtum augum til framtíðar hvað það varðar. Ef ég ætti að nefna eitthvað til að hafa áhyggjur af finnst mér ég heyra full mikið af sögum varðandi fjárhagsörðugleika liða hér heima. Þeim sögum á sjálfsagt ekki eftir að fækka í núverandi ástandi.“
Bara í lokin, hvað gerirðu dagsdaglega fyrir utan körfuboltaþjálfun?
„Ég vinn sem viðskiptastjóri hjá DHL Express á Íslandi, reyndar að mestu heima hjá mér þessa dagana. Þess utan er ég örugglega frekar leiðinleg týpa; eyði miklum tíma heima með fjölskyldunni og horfi mikið á allar þær íþróttir sem í boði eru á þessum síðustu og verstu tímum.“
Texti / Svanur Már Snorrason