spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHrafn Kristjánsson áfram hjá Álftanesi

Hrafn Kristjánsson áfram hjá Álftanesi

Álftanes hefur framlengt samningi sínum við Hrafn Kristjánsson sem þjálfara meistaraflokks karla en Hrafn hefur verið þjálfari liðsins síðastliðin tvö tímabil. Undir stjórn Hrafns í vetur tryggði Álftanes sér sæti í úrslitakeppni fyrstu deildar áður en ákveðið var að aflýsa öllum leikjum vegna Covid-19.

Þá mun Álftanes spila í nýjum íþróttasal á næsta tímabili en í sumar verður salurinn í Forsetahöllinni tekinn í gegn og nýtt gólf lagt sem og aðstaða betrumbætt. Einnig hafa Stjarnan og Álftanes ákveðið að þétta samstarf sitt og gert með sér samning um sameiginlegan unglingaflokk auk þess sem lið Álftaness í 1. deild og Stjarnan munu nýta sér venslasamninga sín á milli.

Huginn Freyr Þorsteinsson formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness: „Álftanes átti frábært tímabil í vetur og við erum í skýjunum með að samstarf okkar við Hrafn Kristjánsson heldur áfram. Reynsla hans er okkur ómetanleg í að byggja upp metnaðarfullt körfuboltastarf. Samstarf okkar við Stjörnuna er líka mikilvægt í að þróa starfið áfram. Þá er það virkilega ánægjulegt að framkvæmdir eru hafnar í Forsetahöllinni en aðstaðan hér til körfuknattleiksiðkunar verður fyrsta flokks eftir breytingar.“

Hrafn Kristjánsson þjálfari Álftaness: „Það hefði þurft eitthvað mikið að gerast til að ég myndi ekki framlengja hjá Álftanesi. Síðasta tímabil var mjög skemmtilegt og gefandi og við erum mjög ánægðir með þá stefnu sem við höfum markað fyrir næsta tímabil. Það er aldrei að vita nema einhverjir leikmenn líti hýru auga til þess að leika á næstu leiktíð á nýju gólfi í Forsetahöllinni en með því og nýjum áhorfendabekkjum teljum við okkur búa að aðstöðu sem jafnast á við það besta á landinu. Við erum mjög sáttir við nýtt samkomulag við Stjörnuna og hlökkum til að sjá hverju það kemur til með að skila til ungra, efnilegra leikmanna í bæjarfélaginu.”

Fréttir
- Auglýsing -