spot_img
HomeFréttirHörkuleikur í Hertz-hellinum

Hörkuleikur í Hertz-hellinum

Hörkuspennandi viðureign ÍR og Stjörnunnar fór fram í Hertz-hellinum í Domino's deild karla í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna á fjórum dögum en sömu lið munu eigast við í Ásgarði í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins á sunnudaginn næstkomandi.

Heimamenn sem léku án Jonathan Mitchell og Daða Bergs í kvöld, hófu leikinn betur og settu fyrstu fjögur stig hans. Stjarnan hélt þó í við ÍR og munurinn 2 stig eftir fyrsta leikhluta, 21-19. Bláklæddir Stjörnumenn komu sprækri til leiks í öðrum leikhluta og höfðu náð 8 stiga forystu þegar þrjár mínútur voru liðnar af honum með góðum körfum frá Magnúsi Bjarka Guðmundssyni, Al'lonzo Coleman og Justin Shouse. ÍR neitaði þó að hleypa Stjörnunni of langt fram úr sér og með mikilli baráttu jöfnuðu þeir leikinn þegar tæplega mínúta var eftir með þriggja stiga körfu Björgvins Hafþórs Ríkharðssonar. Karfa frá Marvin Valdimarssyni undir lok leikhlutans skildi liðin af í hálfleik, staðan 47-49.

Ekkert gekk né rak í sókninni hjá ÍR í upphafi seinni hálfleiks og komu fyrstu stig þeirra ekki fyrr en eftir nærri þriggja mínútna leik þegar Vilhjálmur Theodór Jónsson setti niður vítaskot. Allt virtist stefna í sigur Stjörnunnar sem leiddi með 9 stigum um miðjan þriðja leikhluta, en með góðum kafla minnkaði ÍR muninn niður í 1 stig áður en honum lauk. ÍR-ingar héldu áfram þar sem frá var horfið í fjóra leikhluta, börðust um hvern bolta og höfðu náð 11 stiga forskoti þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Stjarnan freistaði þess að minnka muninn með að senda ÍR á vítalínuna á lokamínútunum, en þrátt fyrir að ÍR setti einungis 4 af 12 síðustu vítum sínum í leiknum þá lönduðu þeir góðum 3 stiga sigri, 96-93. 

Stigaskor ÍR: Oddur Rúnar Kristjánsson 28 stig/8 stoðsendingar, Sveinbjörn Claessen 19 stig/7 stoðsendingar/6 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 17 stig/7 stoðsendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 14 stig/8 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 7 stig, Sæþór Elmar Kristjánsson 5 stig, Trausti Eiríksson 3 stig, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2 stig, Hamid Dicko 1stig, Daníel Freyr Friðriksson 0 stig, Stefán Ásgeir Arnarsson 0 stig, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 0 stig. 

Stigaskor Stjörnunnar: Justin Shouse 27 stig/11 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 16 stig/6 fráköst, Al'lonzo Coleman 14 stig/12 fráköst/9 stoðsendingar, Ágúst Angantýsson 10 stig, Marvin Valdimarsson 6 stig, Tómas Heiðar Tómasson 6 stig, Magnús Bjarki Guðmundsson 5 stig, Sæmundur Valdimarsson 4 stig, Kristinn Ólafsson 3 stig, Daði Lár Jónsson 2 stig, Tómas Þórir Tómasson 0 stig, Óskar Þór Þorsteinsson 0 stig. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Mynd: Oddur Rúnar Kristjánsson átti stórleik fyrir ÍR í kvöld (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -