spot_img
HomeFréttirHörkuleikir í Hagaskóla

Hörkuleikir í Hagaskóla

12:56

{mosimage}

Á laugardaginn voru fimm leikir í a-riðli í  8. flokki drengja. Hér koma nokkrir punktar um þessa leiki. Almennt má segja að liðin í a-riðli séu góð og að strákarnir hafa bætt sig mikið síðan í vor. Sunnudagsleikirnir verða í DHL-höll þeirra svart-hvítu.

Stjarnan – Breiðablik

Stjarnan byrjaði betur og leiddi 14-4 eftir fyrsta fjórðung. Heiðar (Stjörnunni) setti þrjá langa þrista á fjórum mín. Stjörnustrákar léku vel í annarri lotu og voru 22 – 6 yfir í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik fór þeir grænu að beita 2-2-1 pressuvörn allan völl. Sú vörn gekk vel. Leikur Stjörnunnar riðlaðist aðeins og Breiðablik fór að leika betur í sókninni. Staðan í lok þriðju lotu var 33-17. Leikurinn endaði síðan með öruggum sigri Stjörnunnar 44-29.

 

Dagur Kár fór fyrir Stjörnunni og skoraði 11 stig. Heiðar var með góðan leik í vörn og sókn og 9 stig. Stjörnuliðið er vel þjálfað og spilar oftast agaðan sóknarleik sem endar með góðu skoti og varnarleikur þeirra er til fyrirmyndar.

 

Valur var stigahæstur úr röðum Blika með 8 stig. Breiðablik var lengi í gang í þessum leik en þeir sýndu að liðið er með breiðan hóp af efnilegum strákum.

Njarðvík – KR

KR byrjaði sterkt og leiddi með fimm eftir fyrstu lotu. Þeir juku forskot sitt upp í tíu stig í annarri lotu, 22 – 12.

 

UMFN byrjaði þriðju lotuna vel og náðu að minnka muninn niður í sjö stig þrátt fyrir að hitta illa úr vítum. En þríeykið Hugi, Þorgeir og Oddur sýndu góða sóknarburði í lokin á lotunni og komu muninum upp í 17 stig, 39-22.

 

KR lék vel í upphafi fjórðu lotu og komu muninum upp í 29 stig, síðan jafnaðist lotan aðeins og KR sigraði 55-30.

 

Þorgeir (13 stig) og Oddur (10 stig) fóru fyrir KR-ingum í sókninni. Maciej var með 8 stig og Magni með 6 stig fyrir Njarðvík.

 

Sigur KR byggðist upp á mjög góðum varnarleik. Sóknarleikur liðsins var lengst af stirður en góður inn á milli. Leikmenn UMFN náðu sér ekki á strik í þessum leik.

Höttur – Breiðablik

Þessi leikur var mjög mikilvægur fyrir bæði lið, því þetta var hugsanlega úrslitaleikur um að halda sér í a-riðlinum. Allir leikmenn voru vel stemmdir og þjálfarar stjórnuðu sínum mönnum eins og hershöfðingjar.

 

Höttur byrjaði betur og var yfir eftir fyrstu lotu 6-3. Blikar náðu að leika ágæta pressuvörn í næstu lotu og komust yfir 15-12.

 

Þriðja lotan var eign Hattar. Þeir náðu að leysa Blikapressuna og skora mikið af auðveldum körfum. Sóknarleikur Blika var fálmkenndur. Þeir náðu ekki að skora körfu og misnotuðu níu víti í lotunni. Í lok lotunnar var Höttur yfir 28-17.  (Í fyrstu tveimur leikjunum í mótinu misnotuðu Blikar 34 víti.) Síðasta lotan var ágætlega leikin af báðum liðum og endaði leikurinn með góðum sigri Hattarmanna, 47-29.

 

Eysteinn lék mjög vel fyrir Hött í vörn og sókn og var með 14 stig. Andrés félagi hans lék einnig vel og skoraði jafn mikið. Axel Örn var stigahæstur hjá Blikum með 10 stig og Markús með 6.

Stjarnan –KR

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn. KR var tvö stig yfir eftir fyrstu lotuna og Stjarnan var eitt stig yfir í hálfleik.

 

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel. Léku agaðan og skipulagðan sóknarleik og góðan varnarleik og komust 12 stig yfir. Tveir knáir bakverðir KR áttu góðan endasprett í vörn og sókn og skoruðu 10 stig í lok hálfleiksins og minnkuðu muninn niður í þrjú stig, 36-33.

 

KR byrjaði fjórðu lotuna vel og komst fjögur stig yfir. Þá tóku D-in tvö í Stjörnunni (Dagur og Darri) leikinn yfir og skoruðu 12 stig í röð, léku einnig góða vörn og komu sínum mönnum sex stig yfir. Stjörnumenn héldu síðan haus síðustu mín. leiksins og unnu góðan sigur 55-52.

 

Stjörnumenn léku sem heilsteypt lið, börðust í vörninni, sýndu góðan leikskilning og flestar sóknir þeirra enda vel. Dagur Kár fór fyrir liði Stjörnunnar og var með 18 stig, Darri var einnig stekur og var með 9 stig. Oddur var allt í öllu í sóknarleik KR og var með 24 stig.

Höttur-Njarðvík

Þegar þetta er ritað þá höfðu upplýsingar ekki borist í hús um þennan leik.

 {mosimage}
Stjörnudrengir léku vel í dag 

Myndir í boði foreldrafélags 7. flokks KR

Fréttir
- Auglýsing -