Hörður Axel Vilhjálmsson hefur samið við Mitteldeutscher BC í þýsku úrvalsdeildinni fyrir næstu leiktíð. Hörður segir því skilið við Valladolid á Spáni. Hörður sagði hann og eiginkonu sína virkilega ánægð með þróun mála. Hörður snýr því aftur í faðm úlfanna þar sem hann lék á þarsíðasta tímabili áður en hann gekk í raðir Valladolid.
„Það er sami þjálfari og ég er að labba aftur inn í það sama og ég var að fara frá,“ sagði Hörður en þegar hann samdi við Valladolid kom í ljós skýr áhugi frá Mitteldeutscher um að hafa hann áfram í sínum röðum. „Þeir vissu á sínum tíma að það væri kominn áhugi eftir mér frá öðrum liðum en ég er virkilega ánægður með þessa niðurstöðu og við bæði hjónin, við erum að fara í eitthvað sem við þekkjum,“ sagði Hörður eftir erfitt tímabil á Spáni.
„Þetta tímabil voru viss vonbrigði og fjarri því sem ég bjóst við,“ sagði Hörður en Valladolid féll úr ACB deildinni á Spáni og það gekk á ýmsu í herbúðum liðsins sem t.d. var á dögunum dæmt til að gera upp við fyrrum leikmann félagsins sem átti inni hjá þeim vangoldin laun.
Mitteldeutcher var aðeins einum leik frá því að komast í þýsku úrslitakeppnina þetta árið og segir Hörður starfið vera gott sem unnið er hjá félaginu. „Það hafa tveir leikmenn framlengt við félagið sem voru með mér þarna á þarsíðasta ári,“ sagði Hörður en annar þeirra sem Hörður ræðir um er fyrrum Stjörnumaðurinn Djordje Pantelic.
Hörður gerði eins árs samning við úlfana en framundan er landsliðssumar. „Ég verð með landsliðinu svo lengi sem maður kemst í hópinn en ég samdi einmitt við Mitteldeutscher um að landsliðið væri inni í pakkanum. Það verður svaka fjör að fá að taka þátt í landsliðsverkefnum enda erum við að mæta sterkum þjóðum. Ég held að fólk fatti kannski ekki hve sterk Bosnía og England eru, Bretar eru með 2-3 leikmenn í NBA og Bosnía með menn í Grikklandi og NBA líka svo þetta verður fjör.“
Myndir/ Á efri myndinni er Hörður í leik með MBC á þarsíðasta tímabili en á þeirri neðri er kappinn mættur á trefil enda var Hörður í hávegum hafður hjá stuðningsmönnum MBC