Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Hörð Helga Hreiðarsson um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Hörður var lykilleikmaður í liði Vals sem fór upp í Úrvalsdeildina síðastliðið vor. Hörður er 23 ára og skilaði 14,1 stigi að meðaltali í leik og 7,1 frákasti á síðustu leiktíð. Þetta kemur fram á heimasíðu Skallagrímsmanna, www.skallagrimur.is
Á heimasíðu Borgnesinga segir ennfremur:
Um tímamótasamning er að ræða því Hörður kemur til Skalagrímsliðsins á svokölluðum Afreksmannasamning körfuknattleiksdeildar Skallagríms og Háskólans á Bifröst og hefur Hörður þegar hafið nám í frumgreinadeild Háskólans á Bifröst.
Pálmi Sævarsson þjálfari 1. deildar liðs Skallagríms hafði þetta að segja um Hörð. „Hörður kemur til með að styrkja liðið gríðarlega á báðum endum vallarins. Frábær leikmaður sem gefur liðinu mikla möguleika sóknarlega og varnarlega. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður og getur leyst margar stöður á vellinum“.
Stjórn köfuknattleiksdeildar býður Hörð velkominn til félagsins og væntir mikils af honum í vetur, jafnframt lýsir stjórnin yfir mikilli ánægju með að samningur við Háskólann á Bifröst sé kominn á.
Þá er unglingalandsliðsmaðurinn Sigurður Þórarinsson kominn aftur til Skallagríms eftir eins árs fjarveru. Það þarf ekkert að hafa mörg orð um það að Siggi kemur til með að styrkja hópinn alveg gríðarlega, enda einn efnilegasti leikmaður landsins.
Á sama tíma skrifaði Elvar Ólafsson undir samning við Skallagrím, en hann hefur verið í herbúðum Skallagríms undanfarin tímabil og kemur væntanlega til með að spila stærra og stærra hlutverk í liðinu á komandi tímabili, enda tekið miklum framförum að undanförnu.
Mynd/ Hörður Helgi í Borgarnesi á dögunum.