spot_img
HomeFréttirHörður fór hamförum í Valssigri

Hörður fór hamförum í Valssigri

 
Valsmenn tryggði sér sæti í úrslitaeinvíginu um sæti í Iceland Express deildini að ári með 7 stiga sigri á Skallagrím að Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn leiddu nánast allan leikinn að utanskildum stuttum kafla í þriðja leikhluta. Munurinn á liðunum varð þó aldrei meira en 12 stig og því var leikurinn spennandi og skemmtilegur frá upphafi til enda. 
Hörður Hreiðarsson fór á kostum í liði Valsmanna og skoraði 33 stig og tók 8 fráköst í leiknum. Næstu menn á blað hjá heimamönnum voru Sigurður Gunnarsson með 21 stig og 10 fráköst og Byron Davis með glæsilega þrefalda tvennu, 12 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Hjá Skallagrím var Silver Laku stigahæstur með 24 stig og 8 fráköst en næstir voru Hafþór Gunnarsson með 22 stig og Konrad Tota með 14 stig og 13 fráköst.
 
Gestirnir frá Borganesi skoruðu fyrstu tvö stig leiksins eftir tvær mínútur af leik en Valsmenn svöruðu með næstu 4 stigum leiksins. Liðin skiptust á leiða og þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu gestirnir yfir 6-8. Liðin spiluðu bæði fínan varnarleik og var þvi lítið um fallegan sóknarleik. Skallagrímsmenn voru að endurtaka leikinn frá því í fyrsta leiknum og hirtu hvert sóknarfrákastið á fætur öðru. Það skilaði þó ekki miklu og þegar fyrsta leikhluta lauk höfðu heimamenn yfir 14-12.
 
Valsmenn héldu yfirhöndinni fyrstu mínúturnar og þegar þrjár mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta höfðu þeir yfr 20-17. Stuðningsmenn Skallagríms létu vel í sér heyra og höfðu greinilega fjölmennt í Vodafonehöllina. Valsmenn pressuðu hátt líkt og í fyrri leikjunum í seríunni og gerðu gestunum lífið leitt með því. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu þeir náð 9 stiga forskoti, 28-19. Valsmenn héldu uppteknum hætti og þegar 44 sekúndur voru eftir af leikhlutanum tóku gestirnir leikhlé, 43-33. Valsmönnum gekk vel að stoppa máttarstólpa í sóknarleik gestanna og hafði Silver Laku aðeins skorað 5 stig fram að því. Hvorugu liði tókst að skora eftir það og munaði því 10 stigum á liðunum í hálfleik, 43-33.
 
Stigahæstur í liði Vals í hálfleik var Hörður Hreiðarsson með 15 stig en næstir voru Sigurður Gunnarsson með 11 stig og Byron Davis með 6 stig og 7 stoðsendingar. Hjá Skallagrím var Hafþór Gunnarsson stigahæstur með 12 stig en næstir voru Konrad Tota með 9 stig og Silver Laku með 5 stig.
 
Liðin skiptu stigunum mjög bróðurlega á milli sín fyrstu mínútur þriðja leikhluta en þegar leið á tókst gestunum að stoppa sóknarleik Valsmanna og minnkuðu muninn niður í 5 stig þegar leikhlutinn var tæplega hálfnaður, 47-43. Byron Davis hafði þá fengið sína fjórðu villu og var því hvíldur sem sást strax á sóknarleik heimamanna.
 
Um mínútu síðar tók Valur leikhlé og munurinn aðeins 3 stig, 49-46. Skallagrímur hafði þá skorað 13 stig gegn 6 stigum heimamanna. Skallagrímur jafnaði þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af þrijða leikhluta, 49-49 og komust svo yfir í fyrsta skiptið síðan í fyrsta leikhluta stuttu seinna, 51-52. Valsmenn voru að fara afar illa með vítaskotin sín og virtust vera í mjög miklum vandræðum með sóknarleik sinn á meðan Skallagrímur setti niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru. Skallagrímur hafði svo þriggja stiga forskot þegar flautað var til loka þriðja leikhluta, 56-59.
 
Valsmenn byrjuðu fjórða leikhluta mjög vel og náðu forskotinu aftur strax eftir rúmlega mínútu af leik, 60-59. Sigurður Gunnarsson átti virkilega góðan kafla og skoraði 4 stig í röð fyrir Valsmenn og þegar fjórar mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta höfðu þeir náð 5 stiga forskoti, 66-61. Skallagrímur tók svo leikhlé þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður, 68-63.
 
Sigurður Gunnarsson fékk sína fimmtu villu fyrir Valsmenn þegar þrjár og hálf mínúta var eftir og var því sendur á bekkinn. Skallagrímsmenn tóku leikhlé þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum og forskot Valsmanna var 7 stig, 78-71. Gestirnir skutu þriggja stiga skot við hvert tækifæri eftir það og var refsað illilega með fjórum snöggum hraðaupphlaupsstigum heimamanna. Valsmenn fóru hins vegar ótrúlega illa að ráði sínu á seinustu sekúndunum og gáfu Skallagrímsmönnum boltann trekk í trekk. Það kom þó ekki að sök því Valsmenn unnu leikinn 84-77 og tryggðu sér þannig inn í úrslitaeinvígið gegn Haukum.
 
 
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -