Keflavík lagði Tindastól í kvöld í áttundu umferð Dominos deildar karla, 107-81. Keflavík er sem áður í efsta sæti deildarinnar eftir leikinn með 16 stig á meðan að Tindastóll er í 6.-8. sætinu ásamt KR og Njarðvík með 8 stig.
Karfan spjallaði við Hörð Axel Vilhjálmsson, leikmann Keflavíkur, eftir leik í Blue Höllinni. Hörður Axel var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Keflavíkur í kvöld. Á 31 mínútu spilaðri skilaði hann 16 stigum, 4 fráköstum og 14 stoðsendingum. Gaf hann því jafn margar stoðsendingar og Dedrick Basile í leik gegn sama liði þann 28. janúar, en það er sem stendur met tímabilsins.