Íslenska karlalandsliðið heldur til Slóvakíu nú í lok mánaðar til þess að leika tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Fara leikirnir báðir fram í sóttvarnarbólu FIBA í Bratislava, en sá fyrri er gegn Lúxemborg þann 26. og seinni gegn Kósovó 28. nóvember.
Karfan setti sig í samband við leikmann liðsins Hörð Axel Vilhjálmsson og spurði hann út í ferðina og leikina tvo sem Ísland spilar.
Hvernig líst þér á þetta lið sem kallað hefur verið saman fyrir Slóvakíu?
“Mér lýst vel á þennan hóp. Blanda af leikmönnum sem hafa spilað saman í þó nokkurn tíma við yngri menn sem hafa verið að koma sterkir inn í seinustu gluggum. Að fá Hauk inn aftur er risastórt fyrir landsliðið”
Hverjir eru helstu veikleikar/styrkleikar ykkar?
“Styrkleikarnir eru helst þeir að við erum með marga versatile leikmenn. Margir sem geta búið til og spilað af boltanum. Þannig lið er erfitt að verjast”
Verður ekkert erfitt að fara í leiki eftir að hafa verið meinuð aðganga að æfingum upp á síðkastið?
“Fer eftir hvernig þú lýtur á það. Það er mjög auðvelt fyrir okkur að fara að benda á að okkur finnst þetta ósanngjarnt og hefðum viljað vera að spila og æfa komandi inn í gluggann. En staðan er ekki þannig og við erum að fara að gera það besta úr þessarri stöðu og vinna þessa tvo leiki”
Hvað finnst þér um að FIBA krefjist þess að þið spilið þessa leiki í þessu Covid-19 ástandi?
“Mér finnst það eðlilegt miðað við að þeir eru að halda áfram með Champions League. Það eru langflestar landsdeildir að spila þannig svo lengi sem þeir hugsa vel um sóttvarnir og reglur þá er ekkert athugavert við að þeir vilji halda glugganum áfram. Þótt að Ísland sé með allt lokað og engin megi æfa hér eða spila, þá erum við lítið peð innan FIBA og þeir munu ekki taka ákvarðanir útfrá afstöðu KKÍ eða sóttvarnarlæknis Íslands. Á sama skapi finnst mér eðlilegt að KKÍ geri eins og þeir hafa verið að gera með því að mótmæla þessum glugga útfrá ákvörðunum og takmörkunum sem stjórnvöld hér á Íslandi hafa sett. En þegar að kemur að okkur leikmönnum þá er þetta eitthvað sem við þurfum svolítið að horfa framhjá af þvi það skiptir öllu að fá góð úrslit út úr þessum leikjum og utanaðkomandi áhrif geta ekki stuðað okkur á þann hátt að við verðum ekki tilbúnir þegar leikurinn svo hefst”
Hverjir eru möguleikar Íslands í leikjunum tveimur?
“Við förum út til að vinna báða þessa leiki. Ef allt er eðlilegt og við spilum á pari þá eigum við að klára báða þessa leiki”
Við hverju mega íslenskir aðdáendur búast af ykkur í þessum leikjum?
“Það sem má búast við af okkur er áframhald á þvi sem hefur einkennt okkur seinasta áratug eða svo að minnsta kosti. Mikla liðsheild sem eru tilbúnir að fórna “individual success” fyrir hagstæð úrslit. Við munum klárlega með þessum hóp spila meira uptempo heldur en hefur verið uppá síðkastið svo þarf bara að koma í ljós hvort ég sjálfur geti haldið í við að hlaupa með þessum ungu pungum eða bíð bara á varnarhelmingnum tilbúinn að spila vörn”