Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.
Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.
Næstur í röðinni er leikmaður Keflavíkur, aðstoðarþjálfari kvennaliðs félagsins og fyrirliði íslenska landsliðsins, Hörður Axel Vilhjálmsson. Hans menn í Keflavík að sjálfsögðu verið það lið sem komið hefur einna mest á óvart það sem af er vetri, sem stendur í öðru sæti deildarinnar, ennþá með möguleika á að vinna deildarmeistaratitilinn. Hans konur einnig að sama skapi gert vel það sem af er vetri, sem stendur í þriðja sæti deildarinnar.
Hvernig er að vera í leyfi útaf þessum aðstæðum?
“Það er mjög skrýtið að vera ekki að æfa á fullu núna þar sem maður er búinn að vera að gíra sig hægt og bítandi í allan vetur til að vera sem bestur andlega og líkamlega á þeim tíma sem er að renna upp núna”
Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?
“Fyrst og fremst almannahagsmunir. Körfubolti er manni mikilvægur og maður hefur lifað fyrir þetta síðan maður var smá krakki en í stóra samhenginu í þessu er Körfubolti bara íþrótt og leikur”
Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?
“Að hleypa liðum upp og niður á milli deilda núna væri mjög sérstakt. Þegar einhverjar umferðir eru eftir í öllum deildum bæði karla og kvenna”
“Mjög verðugt verkefni fyrir KKÍ að takast á við ef ekki verður spilað aftur”
“Fyrir mitt leyti væri nánast sanngjarnast fyrir alla að hafa liðin í sömu deildum næsta tímabil og þau eru í núna, fyrir mér væri það rökréttast”
“Að sama skapi er Valur í kvk orðið deildarmeistari sem þær eiga fyllilega skilið”
“Stjarnan er langleiðina kominn með deildarmeistaratitilinn karlamegin”
“Það væri flottur titill fyrir þau lið, þau unnu sér inn fyrir því með að vera heilt yfir bestu liðin í allan vetur”
“En að kalla þau Íslandsmeistara, hafa að mínu mati ekki unnið sér inn fyrir því. Til þess er úrslitakeppnin og hún er allt annað mót en deildarkeppnin”
Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?
“Ég veit ekki hver lokaniðurstaðan verður, auðvitað vill maður klára mótið þar sem maður æfir og leggur á sig allan veturinn til þess að verða undirbúinn undir úrslitakeppnina”
“Það eru dæmi þess úti í heimi núna þar sem deildir voru stoppaðar í nokkrar vikur og eru að byrja aftur núna, þannig maður heldur áfram í vonina að það geti gerst hér líka”
“En það þarf að taka ansi mikið inn í reikninginn ef það á að spila fram eftir sumri og reikna vel út hvort það borgi sig fyrir félögin og þess háttar”
“Ég efast um að ef þetta dregst lengra en þessar 4 vikur sem er búið að fresta núna að þetta verði nokkurntimann spilað”
Að lokum, með hverju mælir Hörður Axel í samkomubanninu?
“Nú ætla ég bara að tala um körfuboltahliðina, það er eina sem ég veit eitthvað um, læt lækna og þess háttar tjá sig um hitt”
“Fyrir unga leikmenn myndi ég mæla með að þeir myndu sökkva sér ofan í körfubolta ef þeir eru í alvörunni að huga að því að verða betri. Horfa á gamla leiki fyrst og fremst hjá sjálfum sér ef þeir komast yfir það, fara yfir hvað þeir geti bætt og hvað þeir geri vel”
“Að sama skapi horfa á aðra leikmenn og stela hreyfingum, hugmyndum og hugsunarhætti”
“Það er alltaf hægt að nýta tímann í að verða betri þótt það megi kannski ekki mæta á æfingar eða hvernig þetta verður á næstu vikum”