Bjarni Már Magnússon greindi nýlega frá því á twitter að hann hefði verið sá sem kærði 4 + 1 regluna til ESA (eftirlitsstofnun EFTA), sem síðar skar úr um að hún væri ólögleg og fór fram á það við íslenska ríkið að farið væri eftir lögum og flæði og réttur Evrópubúa til atvinnu á Íslandi ekki takmarkaður. KKÍ tók ákvörðun í framhaldi að breyta 4 + 1 reglunni í kjölfarið og hætta að takmarka fjölda svokallaðra Bosmanleikmanna.
Bjarni Már sagði í samtali við karfan.is að hann hafi ekki kvartað vegna einhvera lögvarða hagsmuna, heldur hafi réttlætiskenndin og sú hugsun að svona lögbrot smitaðist út í aðra anga samfélagsins verið honum leiðarljós. Bjarni sem er prófessor í lögfræði sagði þetta hafa aðeins verið hálftíma dundvinnu að búa til og senda inn kvörtunina og að það væri ekkert tiltökumál. En auðvitað er Bjarni Már þarna á heimavelli enda vanur því að takast á við alþjóðlegar stofnanir vegna vinnu sinnar.
Bjarni Már var sjálfur útlendingur í 12 ár, en hann hefur búið víða um Evrópu og í Ameríku þar sem hann lagði stund á nám. Sjálfur spilaði Bjarni körfubolta m.a. með Þór Akureyri, auk þess að hafa spilað með nokkrum neðri deildar liðum. Hann lék einnig í Skoska háskólaboltanum á námsárum sínum. Þannig þetta mál snerti réttlætiskenndina hjá honum. Bjarni sagðist hafa skoðað hvernig svona kvótareglur á leikmenn komi út og víða er það þannig að stóru liðin í stóru borgunum hagnist mest. Því þar vilji leikmenn búa. Á meðan minni lið úti á landi eigi erfiðara með að lokka leikmenn til sín.
Bjarni Már sem er giftur Hildi Sigurðardóttir, sem átti yfir 20 ára farsælan feril og er ein stiga- og stoðasendingahæsti leikmaður efstu deildar kvenna auk þess að vera margfaldur Íslandsmeistari, tók það sérstaklega fram að hún hafi hvergi komið nálægt ákvarðanatökunni eða umræðu um að senda kvörtun til ESA.