spot_img
HomeFréttirHólmarar talsvert sterkari í framlengingunni

Hólmarar talsvert sterkari í framlengingunni

ÍR-ingar tóku í kvöld á móti Snæfelli úr Stykkishólmi á heimavelli sínum, Hertz hellinum í Seljahverfinu. Fyrir leikinn voru ÍR-ingar komnir í fallsæti, en Snæfell var við topp deildarinnar.
Lítið var skorað á fyrstu mínútum leiksins og hvorugt liðið virkaði sérstaklega beitt. Um miðjan fyrsta fjórðung komust gestirnir samt á flug og hreinlega röðuðu niður þristum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 16-26, gestunum í vil eftir skotsýningu fyrir utan þriggja stiga línuna.
 
Hólmarar virtust hafa tögl og hagldir í öðrum leikhluta og spiluðu vel. Eric Palm var hins vegar ekki á þeim buxunum að hleypa gestunum of langt fram úr og dró vagninn fyrir ÍR. Heimamenn náðu að hleypa lífi í leikinn og staðan í hálfleik var 44-48, Snæfelli í vil.
 
Þriðji leikhluti var hörkuspennandi. ÍR-ingar náðu oft að saxa verulega á gestina, en alltaf virtust Snæfellingar geta svarað með þristi, oftar en ekki frá Ólafi Torfasyni. ÍR-ingar lögðu hins vegar ekki árar í bát og náðu að minnka muninn í tvö stig fyrir lokafjórðunginn, 63-65.
 
Fátt virtist benda til annars en sigurs gestanna þegar skammt var eftir af leiktímanum. Hólmarar höfðu þá 70-79 forystu þegar rúmar 5 mínútur voru eftir og voru að spila nokkuð vel. Þá tók Eric Palm málin í sínar hendur. Kappinn fór hreinlega á kostum í fjórða leikhluta og skoraði hverja körfuna á fætur annarri síðustu mínúturnar. Fór svo að lokum að Palm jafnaði leikinn þegar 25 sekúndur voru eftir, 87-87 og var sú lokastaðan. Því þurfti að framlengja leikinn. Ótrúleg spenna, og frábær tilþrif frá Palm.
 
Þrátt fyrir hetjulega tilburði Palm undir lok venjuleg leiktíma reyndust gestirnir einfaldlega of sterkir í framlengingunni. Framlengingin hófst á 8-0 áhlaupi Hólmara og eftir það var ekki aftur snúið. Fór svo að lokum að gestirnir úr Stykkishólmi höfðu sigur, lokastaðan 93-102 í frábærum leik.
 
Eric Palm fór á kostum í liði heimamanna og skoraði 34 stig. Maður leiksins var hins vegar Ólafur Torfason í liði Snæfells. Kappinn skoraði 25 stig og var stigahæstur gestanna, og komu flest stigin úr gríðarlega mikilvægum þriggja stiga skotum.
 
Með sigrinum komst Snæfell upp að hlið Grindavíkur, Stjörnunnar og Þórs á toppi deildarinnar en ÍR, sigursælasta lið íslensks körfubolta, situr nú í fallsæti.
 
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson  
Fréttir
- Auglýsing -