Pavel Ermolinskij og félagar í Norköpping Dolphins eru komnir áfram í Evrópukeppni félagsliða eftir lokaleikina í gær. Þeir töpuðu reyndar fyrir efsta liðinu í riðlinum, BK Ventspils, en lokastaðan var sú að þrjú lið, Dolphins, Södertalje og Tampereen voru öll jöfn að stigum og einnig jöfn innbyrðis með 2 sigra hvert. Það var því samanlagður stigamunur úr innbyrðis leikjum sem réð úrslitum og þar voru Dolphins efstir og fara áfram.
Pavel og félagar lenda í nýjum riðli og þurfa að ferðast aðeins lengra í þetta sinn en í fyrstu umferðinni, leika nú með Krasnye Krylia Samara frá Rússlandi, BC Khimik Yuzhny frá Úkraínu og Tofas SC Bursa frá Tyrklandi. Leikið er heima og að heiman í fjórum fjögurra liða riðlum. Efstu liðin fara í 8-liða úrslit þar sem leikið er áfram heima og að heiman og svo tekur við „Final-Four“ með hefðbundnum útslætti.