Meistaraflokkur Fylkis tók á móti Fjölni B í æsispennandi leik í annarri deildinni í gær. Fylkismenn mættu í nýju búningunum sínum frá Macron og voru ákveðnir í að sækja fyrsta heimasigur vetrarins.
Fylkismenn byrjuðu leikinn sterkt og unnu fyrsta leikhluta 31-21 þrátt fyrir að hitta bara úr einu af fyrstu sjö þriggja stiga skotunum sínum. Varnarleikur Fylkis var gríðarlega öflugur í fyrsta leikhluta sem hjálpaði liðinu að skora hraðaupphlaupskörfur þegar þristarnir voru ekki að detta.
Gestirnir svöruðu vel í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 52-50 fyrir Fylki. Dómararnir fóru að dæma meira á aggresivan varnarleik Fylkismanna sem fengu samtals 9 villur í öðrum leikhluta. Skotin fyrir utan voru ekki betri en í fyrsta leikhluta en Fylkismenn geiguðu á öllum 6 tilraunum sínum fyrir aftan þriggja stiga línuna í öðrum leikhluta.
Seinni hálfleikur var gríðarlega spennandi en Fylkir misstu aldrei forystuna frá sér. Skotin fyrir utan fóru að detta og Fylkismenn hættu að tapa boltanum jafn mikið en þeir köstuðu honum frá sér 8 sinnum í öðrum leikhluta. Staðan á leiðinni inn í loka leikhlutann var 81-76 fyrir Fylki.
Fjórði leikhluti var jafn framan af þar sem liðin skiptust á körfum. Nokkrir þristar í röð hjálpuðu Fylki að slíta sig frá gestunum á lokamínútunum. Fylkismenn leggja sig síðan mikið fram við að skemmta áhorfendum en Þórarinn Gunnar Óskarsson endaði leikinn með alley oop troðslu eftir sendingu frá Friðrik Þjálfa Stefánssyni. Leikurinn endaði með 110-98 sigri heimamanna sem eru nú þegar búnir að vinna fleiri leiki en þeir gerðu fyrir áramót í fyrra.
Atkvæðamestir í liði Fylkis voru meðal annars, Þórarinn Gunnar Óskarsson með 27 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta. Óðinn Þórðarson með 20 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Jason Ragnarsson með mjög skilvirk 21 stig úr 13 skotum og Ellert Hermundarson með 14 stig á 14 mínútum.