Frakkar hafa heldur betur komið á óvar á þessu heimsmeistaramóti. Skíttöpuðu fyrir Spánverjum í riðlakeppninni en gerðu sig svo lítið fyrir og slógu Spán út í 8 liða úrslitunum. Töpuðu svo naumlega fyrir Serbum en koma svo aftan að Litháum og stela sigrinum af þeim með herkænsku og baráttu.
Litháar stýrðu leiknum lengst af og Frakkar eltu, líkt og þeir höfðu gert í leikjunum gegn Serbum og Spánverjum. Fransmenn slepptu Litháum þó aldrei langt fram úr sér, unnu sig upp hægt og rólega þar til leikurinn var orðinn hnífjafn á síðustu mínútunni.
Þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum skiptust liðin á að senda hvort annað á vítalínuna. Frakkar með 3 stiga forystu lengst af og Litháar komust aldrei nær en 1 stig því Frakkar brutu alltaf á þeim þegar þeir komu upp með boltann. Litháar gerðu hið sama, í þeirri von um að einhver þeirra brenndi af, en án árangurs.
Í stöðunni 92-95 fyrir Frakklandi, með rúma sekúndu eftir af leiknum, var Jonas Valaciunas kominn á vítalínuna með tvö skot í boði. Ekkert annað í stöðunni en að hitta úr fyrra og henda í hringinn í því seinna. Það brást þar sem boltinn skaust allt of hratt út úr teignum og leikurinn úti.
Valanciunas leiddi Litháa með 25 stig og 9 fráköst en hjá Frökkum var Nikolas Batum enn og aftur bestur með 27 stig.