Bandaríkin gjörsigruðu Serbíu í úrslitum heimsmeistaramóts FIBA, 129-92. Yfirburðir bandaríska landsliðsins voru augljósir frá byrjun og þarf enginn að efast um þá eftir þennan leik.
Serbar voru sprækir í byrjun en fljótlega í fyrsta hluta virtist allur vindur úr þeim. Þreyta eflaust stór þáttur í leik liðsins en þeir hafa farið erfiða leið að úrslitunum.
Bandaríkjamenn hittu úr nánast öllu sem þeir fleygðu upp. Kyrie Irving var óstöðvandi í fyrri hálfleik. Tætti í sundur vörnina með árásum á körfuna og skaut niður þristum þess á milli. James Harden var einnig frábær í sóknarleik bandaríska liðsins þó takmarkanir hans í vörn hafi verið áberandi sem fyrr.
Það var vart hægt að vinna veikan blett á leik bandaríska liðsins. Allir voru að skora og hvar sem er á vellinum.
Kyrie Irving leiddi Bandaríkjamenn með 26 stig og var valinn maður leiksins. Fast á eftir fylgdi James Harden með 23. Nemanja Bjelica og Nikola Kalinic leiddu Serbíu með 18 stig hvor. Lítið bar á Milos Teodosic.
Lið mótsins var einnig valið en það mönnuðu Milos Teodosic (Serbíu), Kyrie Irving (Bandaríkjunum), Nikolas Batum (Frakklandi), Pau Gasol (Spáni) og Kenneth Faried (Bandaríkjunum).
Morgunljóst er að Evrópa og restin af heiminum þarf að spýta í lófana ætli hún að veita Bandaríkjunum einhverja mótspyrnu á þessu móti í framtíðinni. Yfirburðir Bandaríkjanna á öllum sviðum eru gríðarlegir, hvort sem um ræðir þjálfun og hreyfanleika stórra manna eða annað.
Ryder bikar körfuboltans er hugmynd sem ég heyrði velt upp áðan. Alls ekki slæm hugmynd. Leikur sem spilaður yrði einu sinni á tveggja ára fresti. Leikur á milli Bandaríkjanna og úrvalsliðs Evrópu. Leikur um montréttinn milli standa Atlantshafsins.