Í gær var dregið í riðla í Evrópukeppni karla í körfuknattleik og drógst Ísland í A-riðil sem óhætt má kalla einn af sterkustu riðlunum sem í boði voru en þar gefur að líta Serbíu, Ísrael, Svartfjallaland, Eistland og Slóvakíu. Alls 31 lið voru í pottinum í 6 riðlum en keppt er um 16 laus sæti á Evrópumeistaramótinu 2013 sem fram fer í Slóveníu. Karfan.is setti sig í samband við Hlyn Elías Bæringsson leikmann Sundsvall Dragons í Svíþjóð og fyrirliða íslenska landsliðsins og við spurðum Hlyn hvernig honum litist á dráttinn.
,,Þetta er gríðarlega sterkur riðill og ég væri að ljúga ef ég segði að hann væri óskariðill. Svartfjallaland er gríðarsterkt og kom úr 3. styrkleikaflokk og að sjálfsögðu eru Serbía og Ísrael miklar körfuboltaþjóðir. Eistar eru einnig með mjög gott lið. Ég veit minna um Slóvakana.
Þetta verður því djöfuls brekka, því er ekki að neita en við ætlum að standa okkur. Við viljum byggja upp jákvætt og gott landsliðsprógramm til framtíðar,“ sagði Hlynur en hvar mun Ísland mögulega sækja stigin sín í riðlinum?
,,Slóvakía og Eistland á heimavelli myndi ég halda. Þau eru þó langt í frá gefins. Svo er vonin alltaf að taka eitt stórlið heima, það verður allt gert til að landa einum þannig. Okkar möguleiki felst í því að vera í okkar allra allra besta formi, allir leikmenn bera á ábyrgð á sjáfum sér þar. Það er nógu erfitt að spila á móti þjóðum eins og Serbíu í toppstandi. Við munum því undirbúa okkur eins vel og við mögulega getum, bæði sem lið og einstaklingar.“