Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson hefja í dag úrslitaeinvígið í sænsku úrvalsdeildinni með Sundsvall Dragons. Andstæðingurinn er ekki af verri endanum, Norrköping Dolphins, sem þykja nokkuð góðir með sig að sögn Hlyns Bæringssonar en Karfan.is náði tali af Hlyn í morgun.
Eru allir klárir í bátana hjá Sundsvall og gott tempó í gangi þrátt fyrir langt frí?
Það vona ég, við höfum haldið góðu tempói eftir að hafa fengið tveggja daga pásu strax eftir undanúrslitin. Þetta er mögulega 7 leikja sería og þeir eru með marga gamla leikmenn svo ég held að þetta hjálpi okkur í þetta skiptið. Þó ég sé yfirleitt hrifnari af því að spila strax. Þeir eru með 41 árs, 39 ára og 36 ára leikmenn í lykilstöðum. Svo þeir verða vonandi lúnir í seríunni. Svo eru fleiri sem eru komnir vel yfir þrítugt sem hafa spilað mjög marga leiki í vetur.
Heimavöllurinn, mun hann vega þungt í þessu?
Hann hjálpar eitthvað, sérstaklega uppá ferðalögin. En ég held að það verði ekkert úrslitaatriði.
Hvernig hefur verið rætt um þessa rimmu í sænsku pressunni?
Ég hef nú lítið fylgst með því en þó að Norrköping hafi lent í 3. sæti hér þá eru þeir taldir líklegri held ég. Þeir lentu í þriðja sæti mikið til útaf því hvað þeir voru að gera utan Svíþjóðar, spiluðu bæði í Baltic deildinni og Eurocup þar sem þeir stóðu sig vel. Þær keppnir voru í forgangi hjá þeim held ég. Þeir eru mjög góðir með sig og hafa lýst því yfir að þeir séu með langbesta lið Svíþjóðar.