spot_img
HomeFréttirHlynur: Menn virðast þekkja sín hlutverk

Hlynur: Menn virðast þekkja sín hlutverk

Sundsvall Dragons hafa sex stiga forskot á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigur á Norrköping í gær. Karfan.is ræddi við Hlyn Bæringsson um þetta góða gengi liðsins og hvort liðsmenn Sundsvall horfðu öfundaraugum á Pavel Ermolinski og félaga í Norrköping sem taka þátt í Eurochallenge keppninni.
 
,,Gott ,,chemistry” fyrst og fremst myndi ég segja,” svaraði Hlynur aðspurður um gott gengi liðsins. ,,Alex Wesby breytir svo miklu fyrir okkur á öllum sviðum leiksins. Fengum svo annan góðan kana, Micheal Cuffee. Þeir tveir eru ekkert sérstaklega árennilegir í stöðum 2-3. Menn virðast bara þekkja sín hlutverk og þetta rennur bara ljúft í gegn, gaman að þessu. Enda væri nú eitthvað mikið að ef það væri ekki gaman að vinna 10 í röð,” sagði Hlynur en hvað með Evrópu, horfa liðsmenn Sundsvall öfundaraugum á lið eins og Norrköping þar sem Pavel spilar í Eurochallenge?
 
,,Já og nei, það er alveg greinilegt að við eigum fullt erindi í Evrópukeppni. T.d. þegar við unnum titilinn á eftir seríu við Norrköping þá náðu þeir góðum árangri í þeirri keppni. Svo vissulega langar okkur leikmönnunum að vera í þessu. A.m.k mér, það væri gaman að prófa þó ekki væri nema eitt tímabil. Þetta er hinsvegar alltaf spurning um peninga, ef við förum þá langar okkur að gera þetta almennilega, uppá ferðalög og undirbúning.
Það kemur frekar lítil hjálp ef hún er einhver frá FIBA, t.d. hefur maður heyrt af forráðamönnum liða sem hálfpartinn hræðast það að komast áfram ef löng ferðalög bíða. Auðvitað á það ekki að vera þannig, þetta er því gjörólíkt landslag við það sem þekkist hjá t.d. FIFA. Ég þekki þetta þó ekki 100% en það virðist eitthvað vera í ólagi,” sagði Hlynur en við stórsviguðum í kringum eitt og annað og okkur bar næst niður í umræðuna um deildina, þreföld umferð þetta tímabilið í stað fjórfaldrar eins og undanfarin ár. Álagið mikið?
 
,,Við fórum í þrefalda umferð og því fækkaði leikjum úr 36 í 33. Ég hef því eiginlega engar áhyggjur af álagi, auðvitað getur þetta verið erfitt, sérstaklega þegar löng ferðalög eru og stutt á milli leikja.
En mér finnst mitt starf ekki einkennast af álagi ef ég ber það saman við mörg önnur, og hvorki heyrist hósti né stuna frá þeim. Þetta bjargast því allt,” en hvað með hann sjálfan sem leikmann, er hann að horfa á stærri deildir eða hafa stærri lið verið að hafa samband?
 
,,Nei ekki eins og er a.m.k. Ég skrifaði undir þennan samning í fyrra og var því ekkert að bera mig eftir því eftir landsliðs törnina. Auðvitað langar mig stundum að prófa aðrar og stærri deildir, sem gamall maður á ég kannski eftir að sjá eftir því en þá get ég alltaf logið að börnunum mínum a.m.k. að árin 2011-2015 hafi sænska deildin verið ein sú allra sterkasta í heiminum,” sagði Hlynur en það er jafnan stutt í gamanið hjá landsliðsfyrirliðanum.
  
Fréttir
- Auglýsing -