spot_img
HomeFréttirHlynur Bærings körfuboltamaður eins og köttur á milli stanganna

Hlynur Bærings körfuboltamaður eins og köttur á milli stanganna

11:11

{mosimage}

Hlynur Bæringsson einn besti körfuboltamaður landsins tók fram takkaskóna í gær og spilaði með Snæfelli gegn GG í þriðju deildinni. Hlynur sem leikur einnig með Snæfelli í körfunni lék frábærlega í markinu í gær en lokatölur urðu 1-1.

,,Þetta kom þannig til að það er frekar fátt í fótboltanum hérna í Hólminum og ég var á körfuboltaæfingu kvöldið fyrir leikinn þar sem ég var beðinn um að vera í marki," sagði Hlynur við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta var mikil byrjendaheppni held ég. Það kom mér mjög á óvart hvernig gekk. Maður reyndi að vera fyrir þegar það átti við og þetta var mjög gaman," sagði Hlynur sem var þarna að leika sinn fyrsta leik á stór mörk en hann lagði takkaskóna á hilluna í 5.flokki en dustaði rykið af þeim í gær og spilaði með Snæfelli.

Í sumar hefur liði Snæfells ekki gengið vel og fengið 72 mörk á sig í A-riðlinum og krækt í fjögur stig. Hlynur varði vel og hann útilokar ekki að leika meira í sumar. ,,Þetta var það gaman að kannski spilar maður einn leik í viðbót." sagði Hlynur sem var ekki eini körfuboltamaðurinn sem lék með Snæfellingum í gær.

,,Árni Ásgeirsson var hægri bakvörður, kolvitlaus og grófur og Gunnlaugur Smárason sem skoraði markið er líka í körfunni."

mynd: vf.is

www.fotbolti.net

Fréttir
- Auglýsing -