spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHlíðarendapiltar fengu hár í bogann!

Hlíðarendapiltar fengu hár í bogann!

Valsarar fengu Íslandsmeistarana og toppliðið frá Þorlákshöfn í heimsókn í 8. umferð Subway-deildarinnar í kvöld. Valsmenn hafa verið á uppleið að undanförnu en það útaf fyrir sig tryggir augljóslega engin stig á móti frábærlega vel mönnuðu og stórskemmtilegu liði Þórs. Við skulum sjá hvað leynist í Kúlunni…

Kúlan: Í kúlunni ferðumst við greinilega til víkingaaldar og greina má boga fagran en með slitinn streng. Á hann rignir svo eldi og brennisteini af himnum ofan og boginn leysist upp í öreindir sínar. Þetta þýðir að Íslandsmeistararnir munu skjóta Valsliðið í kaf og sigra örugglega, 80-95. Lítil von er til þess að sú kaldlynda úr Dölunum ljái sínum mönnum hár í streng, sagan á það til að endurtaka sig.

Byrjunarlið
Valur: Kristó, Hjálmar, Pablo, Pavel, Lawson
Þór Þ.: Rutkauskas, Watson, Dabbi kóngur, Mortensen, Tómas Valur

Gangur leiksins
Hlíðarendapiltar hófu bardagann vel og héldu gestunum frá sér í byrjun. Lawson opnaði leikinn með þristi gegn sínum gömlu og Valsmenn komust í 8-0. Það þurfti Kónginn til að brjóta ísinn fyrir meistarana og nokkru síðar jafnaði Tómas Valur í 10-10 með þristi. Eftir einn leikhluta stóðu leikar 14-12, ansi rólegt yfir þessu en þjálfararnir báðir líkast til sáttir með varnarleikinn.

Kóngurinn hóf annan leikhlutann með því að koma gestunum 14-15 yfir með þristi eftir dæmigerða gullsókn meistaranna. Tilfinningin fyrir leiknum var sú að gestirnir myndu skunda framúr í framhaldinu…og það gerðu þeir vissulega þó munurinn hafi ekki vaxið mjög ört. Þegar um 6 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik leiddu gestirnir 21-27 og Finnur, sem hafði kannski svipaða tilfinningu, tók leikhlé. Það var helst Sveinn Búi Bigga-Mikkson sem hélt Völsurum nálægt gestunum, henti í 2 þrista og staðan 36-43 í hálfleik. Sveinn var næststigahæstur Valsmanna með 8 stig í hálfleik en Pablo aftur á móti stigalaus!

Eftir einn hyldjúpan tvist frá Tómasi leiddu gestirnir 38-47 snemma í þriðja leikhluta og undirritaður byrjaði að hrósa sér fyrir ótrúlegt og fáheyrt innsæi í körfubolta. En rétt eins og hjá Kúlunni (sem spáði síðast rétt um úrslit einhvern tímann fyrir covid) reyndist þessi framtíðarsýn alger þvæla. Valsmenn tóku öll völd á vellinum, vörnin varð enn þéttari og gestirnir settu varla stig á töfluna í einhverjar mínútur. Pablo virðist hafa fengið koss frá þeirri kaldlyndu í hálfleik og raðaði niður stigum fyrir sína menn og allt í einu voru heimamenn 52-50 yfir! Þá voru 4:20 eftir af þriðja og Lalli tók eðlilega leikhlé. Skömmu áður hafði Mortensen snúið sig á ökkla eftir að það var mögulega stigið undir hann í skoti og tók hann ekki frekari þátt í leiknum. Það var þó kannski frekar ráðaleysi gestanna gegn sterkri vörn heimamanna sem var vandamálið og þristar upp úr engu frá fyrirliða meistaranna var helsta ástæðan fyrir jöfnum leik að þriðja leikhluta loknum, 59-59.

Eins og fyrr segir náðu Valsmenn yfirhöndinni í þriðja leikhluta og héldu henni út leikinn. Heimamenn settu fyrstu 7 stig fjórða leikhluta, enn var Pablo heitur og Kristó rúllaði inn stigum jafnt og þétt yfir allan leikinn. Um miðjan leikhlutann var þó munurinn aðeins 3 stig, 66-63, eftir einstaklingsframtak frá Massarelli en nú var tilfinningin sú að gestirnir myndu ekki ná að snúa leiknum sér í hag með slíkum tilburðum í liðsíþrótt. Það reyndist vera rétt tilfinning, Pablo lokaði leiknum með þristi þegar 2 mínútur voru eftir og staðan 80-70. Lokatölur urðu 86-75, mjög góður sigur Vals staðreynd!

Menn leiksins
Pablo var stigalaus í hálfleik en úrslit ráðast í þeim seinni og í honum setti hann 21 stig! Hann gaf einnig 7 stoðsendingar og hirti 5 fráköst. Kristó er hins vegar meiri jafnaðarmaður, spilaði vel allan leikinn og tíndi í pokann jafnt og þétt, setti 18 stig og tók 14 fráköst.

Bjartast var yfir Tómasi Val hjá gestunum, setti 11 stig, en aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta í kvöld.

Kjarninn
Lalli var auðvitað ekki sjóðandi brjálaður eftir leik þó fátt jákvætt megi taka úr þessum leik. Í spjalli eftir leik urðum við sammála um að Tómas hafi verið bjarti punkturinn að þessu sinni og eftir svona niðursveiflu má vonast til þess að eggja megi menn til betri frammistöðu í næsta leik. Raggi Braga var ekki með í kvöld en ekkert alvarlegt amar að honum. Það er hins vegar spurning með Mortensen, hann gæti misst af næsta leik en liðið er vel mannað og ætti ekki að standa og falla með einum leikmanni.

Valsmenn eru á réttri leið að því er virðist og Finnur tók undir það í viðtali eftir leik. Varnarleikur liðsins var nánast loftþéttur í síðari hálfleik og Pablo opnaði kannski svolítið dyrnar að körfunni fyrir liðið með góðri frammistöðu. Einnig skilar frábær varnarleikur sér á ýmsan hátt hinum megin á vellinum rétt eins og Finnur benti á í spjalli okkar. Valsliðið er bara mjög spennandi fyrir margra hluta sakir og ef Finnur finnur Kana sem smellur í liðið gæti Gunnar orðið gamall maður…

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Fréttir
- Auglýsing -