spot_img
HomeFréttirHjalti: Við hlaupum

Hjalti: Við hlaupum

Fjölnir og Skallagrímur mætast í kvöld í fyrsta leik úrslitaviðureignar liðanna um sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð og er viðbúið að baráttan verði mikil.

 

Fjölnir lenti í öðru sæti deildarinnar en Skallagrímur í því fjórða. Fjölnir sendi ÍA í sumarfrí eftir 4 leiki og Skallagrímur hafði betur gegn Val í oddaleik.

 

Karfan.is heyrði í Hjalta Vilhjálmssyni, þjálfara Fjölnis og ræddi einvígi liðanna.

 

"Skallagrímur er með mjög sprækt lið. Flotta íþróttamenn og einn súper íþróttamann í Jean," en þar á hann við Jean Rony Cadet sem hefur sýnt ófá tilþrifin í vetur í 1. deildinni. "Þeir eru með ungt lið eins og við nema auðvitað Hafþór sem er ungur í anda." Hinn 34 ára Hafþór Ingi Gunnarsson hefur spilað um 20 mínútur í leik fyrir Skallagrím og skorað 8 stig í leik.

 

"Þeir spila allskonar varnir og gerðu mjög vel sóknarlega fannst mér gegn Val. Þeirra helstu kanónur eru Sigtryggur og Jean en svo hafa þeir marga leikmenn sem geta tekið upp á því að setja 15+ punkta þannig að við verðum að vera klárir að spila þétta vörn. Þetta einvígi verður stál í stál og þrælskemmtilegt."

 

Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms sagði í spjalli við Karfan.is að þeir myndu keyra allt í botn og spila hraðan bolta. Við spurðum Hjalta hvort Fjölnir myndi hlaupa með þeim eða reyna að hægja á leiknum. Svarið var einfalt.

 

"Við hlaupum."

 

Leikur Fjölnis og Skallagríms hefst kl. 19:15 í Dalhúsum í kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -