Keflavík lagði Stjörnuna í MGH í gærkvöldi í 2. umferð Subway deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík með tvo sigra úr þessum fyrstu tveimur umferðum á meðan að Stjarnan hefur unnið einn og tapað einum.
Karfan ræddi við Hjalta Þór eftir góðan sigur í Garðabænum.
Það er bjart yfir Bítlabænum! 6-0 í Subway ef við tökum stelpurnar með!
Já 6-0! Við erum bara að gera þrælvel, það er ákveðin stemmning og bara gaman og það er að skila sér til leikmanna.
Akkúrat, ég tók eftir því að það voru 7 búnir að skora hjá þínu liði eftir fyrsta leikhluta og 9 leikmenn snemma í öðrum leikhluta…það hlýtur að vera styrkleikamerki?
Jájá, breiddin í liðinu er bara góð, en bekkurinn í dag kom samt svolítið flatur inn í byrjun, við vorum komnir 10 yfir eða svo í fyrsta leikhluta, það er eitthvað sem við þurfum að skoða, við þurfum að fá orku af bekknum, það skiptir miklu máli.
Nákvæmlega. Stjörnumenn voru ólseigir, þeir spiluðu að mörgu leyti vel líka í kvöld, annars hefðuð þið sennilega bara keyrt yfir þá…
Stjörnumenn eru bara með fantalið, þeir eru líka með einn leikmann sem er bara mjög erfitt að stoppa. Við vorum bara að reyna að taka hann út eins og í handbolta!
Ég get ímyndað mér um hvern þú ert að tala…Hinn þriðja væntanlega?
Nákvæmlega. Hann kemur hérna á fullum krafti upp völlinn og beint upp í þriggja stiga skot og hann setur þetta allt ofaní! Það er rosa erfitt að verjast þessu, hann er bara ótrúlega góður.
Hann leiddi sannarlega áhlaup Stjörnunnar þegar einhverjar 4 mínútur voru eftir eða svo…og það er merkilegt hvað maður sér það oft gerast að lið eru svo gott sem búin að vinna leikinn, eru einhverjum 15 yfir eða svo og einhverjar 4-5 mínútur eftir en þá brestur á með áhlaupi andstæðingsins sem kemur sér inn í leikinn aftur…hvernig stendur á þessu??
Jájá…þetta er bæði það að þeir fara bara í svona fock-it-mode…setja bara hátt skrín og láta Turner í þessu tilviki ráðast á vörnina og svo líka það að við förum eitthvað aðeins að reyna að halda í sigurinn, halda að þetta sé komið, ég segi ekki værukærð, við vorum alveg á fullu en samt bara meðvitaðir um það að tíminn er að vinna með okkur…en kannski full mikið meðvitaðir um það…
Akkúrat. Þetta er bara leikur 2 og allt það og öll lið halda auðvitað áfram að reyna að bæta sig…en þetta lítur rosalega vel út hjá ykkur?
Jájá, við erum með breiðan hóp og menn eru bara að berjast um mínútur á vellinum og hver æfing er alvöru. Við erum með svona 12 menn í hópnum sem ættu bara að spila einhverjar mínútur og svo unga stráka ofan á það svo æfingarnar hjá okkur eru bara hörku góðar.
Einmitt. Ég sé fyrir mér að þú gætir mögulega óttast að það komi kannski einhver deyfð í þetta þegar fram líður…kannski í janúar eða svo þegar enn verður nokkuð í úrslitakeppnina…
Nja…það er bara okkar að halda öllum á tánum. Ég held að þegar samkeppnin er þetta hörð þá séu menn að ýta við hver öðrum, það vilja allir vera á gólfinu, fá mínútur, og ef þú vilt fá mínútur þarftu að standa þig á æfingum og í leikjum.
Jájá, og að sama skapi er samkeppnin hörð í deildinni. Það er ekkert útséð með það að þið eða eitthvað annað lið séuð endilega að fara að stinga af neitt?
Neinei, langt í frá. Það eru 2 leikir búnir og við eigum alveg eftir að sjá hvernig deildin þróast og maður sjái hverjir eru sterkastir og hverjir lenda í neðri hlutanum og allt þetta, það eru mörg lið að spila bara fanta vel.
Einmitt, spennandi tímabil framundan?
Algjörlega!