Hafnfirska ungstirnið Hilmar Smári Henningsson mun verða við æfingar hjá spænska ACB stórliðinu Valencia í næstu viku. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við MBL í dag.
Miðherji íslensk landsliðsins Tryggvi Snær Hlinasson er á mála hjá félaginu, en hann var á láni hjá Obradoiro á þessu tímabili í ACB deildinni. Þá lék Jón Arnór Stefánsson á sínum tíma með liði Valencia, en samkvæmt frétt MBL mun hafa verið haft samband við hann til þess að fá upplýsingar um hafnfirðinginn unga.
Hilmar, sem er 19 ára gamall, lék lykilhlutverk með Haukum á yfirstandandi tímabili, en þá hefur hann einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.
Ekkert hefur verið gefið út með hvort samningur við félagið muni fylgja í kjölfarið, en í samtalinu sagðist hann þurfa að sýna þeim hvað hann gæti og vonast eftir því að þeir semji svo við hann.