Fyrir rétt rúmu ári síðan ákvað leikmaður Hauka, Hilmar Smári Henningsson, að leggja land unir fót og semja við ACB lið Valencia á Spáni. Samingurinn sem Hilmar gerði hljóðaði upp á tvö ár plús tvö ár, sem þýðir að eftir næsta tímabil verður sest aftur að samningsborðinu. Valencia er stórt félag á alþjóðlegan mælikvarða, sem bæði leikur í efstu deild á Spáni, ACB, sem og í sterkustu Evrópukeppni félagsliða, EuroLeague. Líkt og kannski viðbúið var, hafa tækifæri með aðalliði félagsins verið af skornum skammti, en Hilmar æfir einnig og leikur með EBA liði félagsins.
Hilmar, sem er í dag nítján ára að aldri lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokki Hauka í Hafnarfirði. Þá var hann einnig hálft tímabil með Þór Akureyri 2017-18. Á þar síðasta tímabili, áður en hann fór til Spánar, skilaði hann 14 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik í Dominos deildinni með Haukum. Þá hefur Hilmar einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands, sem og var hann með A landsliðinu á Smáþjóðaleikum síðasta árs.
Karfan setti sig í samband við Hilmar og spurði hann aðeins út í þetta síðasta tímabil og lífið á Spáni.
Hvernig fannst þér þetta fyrsta ár ganga hjá þér hjá Valencia?
” Fyrsta orðið sem kemur upp í hugan á mér þegar ég hugsa um þetta fyrsta ár mitt hjá Valencia er „lærdómsríkt“. Ég var í raun að berjast við allskonar meiðsl á tímabilinu og missti af slatta af leikjum. Ég hef aldrei lent í neinum meiðslum áður þannig þetta var gríðarlega krefjandi og mjög mikil áskorun fyrir mig. Ég þurfti að stöðugt að vera að minna mig á langtímamarkmið mitt í boltanum og læra að halda haus í gegnum erfiða tíma svona langt frá öllum og sérstaklega við þær aðstæður að fá ekki að gera það eina sem ég vill vera að gera sem er að spila körfubolta. Ég tel mig hafa þroskast mikið þetta tímabil og ég hef horft á meiðslin eins og hvert annað verkefni sem var eitthvað sem gerði mig bara sterkari og sterkari andlega og í raun einbeittari líka ef eitthvað er. Þrátt fyrir mótlæti þá vildi ég ekki hafa verið annarsstaðar en hjá Valencia þar sem þeir hafa hjálpað mér gríðarlega mikið og staðið með mér í gegnum allt og sjá þeir gríðarlega vel um mig.”
Hvernig var að vera hjá liði í ACB?
“Að vera hjá liði eins og Valencia er í raun algjörlega magnað, að upplifa hvað þessir frábæru leikmenn og þjálfarar og allir sem koma nálægt liðinu leggja mikla vinnu, tíma og metnað í starfið sitt er bara ótrúlegt og er það eitthvað sem ég dýrka í botn. Ég var jafnt og þétt yfir árið að æfa með ACB/Euroleague liðinu á tímabilinu. Það að æfa með og takast á við þá bestu á hverjum degi er magnað og maður getur eiginlega ekki annað en orðið betri og betri með tímanum. Þessi klúbbur býst ekki við neinu öðru en framúrskarandi efforti frá öllum, allt árið í kring. Á hverjum degi fer ég á 3 æfingar, lyftingaræfingu og tækniæfing með þjálfara á morgnana og síðan liðsæfingu um kvöldið. Í þessu umhverfi færðu tækifæri til að verða betri og betri með hverjum deginum, þ.e. svo lengi sem þú hefur hausinn rétt skrúfaðan á og sýnir metnað og dugnað”
Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?
” Já ég þurfti alveg að aðlagast miklu þegar ég kom út. Þjálfarinn minn hefur mjög sterkar skoðanir á hvernig hann vill að þú spilir leikinn, það er svo margt sem maður vissi ekki um körfubolta þrátt fyrir að hafa æft þetta síðan ég man eftir mér og taldi mig vita heilan helling, ég er enþá bara ungur og mun halda áfram að læra meira og meira”
Nú er þetta nokkuð stór deild sem aðalliðið er í, hvernig eru aðstæður fyrir æfingar og leiki hjá svona liði?
“Aðstaða leikmanna er öll til fyrirmyndar, þetta eru heimsklassa íþróttahús og við höfum aðgang af 9 fullum körfuboltavöllum til viðbótar við aðalíþróttahúsið. Það eru alltaf 3-4 sjúkraþjálfarar og einn læknir á vakt og alltaf tilbúnir þegar maður þarf á þeim að halda. Þeir lofuðu mér að mig myndi ekki skorta neitt tengt aðstöðu, aðstoð og umhirðu og hefur hefur klúbburinn staðist allar mínar væntingar og í raun miklu meira en það”
Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði?
“Já, aðalliðið mitt sem spilar í EBA deildinni var komið hrikalega langt og vorum mjög nálægt því að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni og áttum raunhæfan möguleika á að vinna deildina. Eins og er þá er ekki enn búið að hætta við/aflýsa deildinni en ég veit ekkert hvernig framhaldið verður. Ef deildinni verður aflýst verða það auðvitað vonbrigði en ekkert er hægt að gera í þessu nema bara halda fókus og horfa á björtu hliðarnar þrátt fyrir erfiða tíma hjá mörgum”
Upphaflega gerðir þú tveggja ára samning við liðið, þar sem þú ert þá væntanlega búinn með ár af og ferð aftur út næsta haust, hver eru markmiðin hjá þér á næsta tímabili?
“Það er rétt, ég gerði svokallaðan 2+2 samning við Valencia sem þýðir að eftir næsta tímabil verða málin skoðuð af báðum aðilum (mér og klúbbnum) og framhaldið ákveðið. Ég ætla að mæta vel undirbúinn til leiks næsta tímabil reynslunni ríkari og að sjálfsðgðu mun ég reyna að öðlast meiri tækifæri með aðalliðinu og vonandi detta inn í liðið á einhverjum tímpunkti. Ég mun leggja mig allan fram og markmiðið mitt er bæta mig á hverjum degi og tryggja mig í sessi á þessu sviði sem er jú það stærsta í Evrópskum körfubolta m.v. að ACB deildin er besta landsdeildin og Euroleague er langsterkasta Evrópukeppnin”