spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHilmar og Orri frábærir í enn einum sigurleik Stjörnunnar

Hilmar og Orri frábærir í enn einum sigurleik Stjörnunnar

Stjarnan lagði Grindavík í kvöld í spennuleik í Ásgarði í 5. umferð Bónus deildar karla, 104-98.

Gestirnir úr Grindavík hófu leik kvöldsins betur. Ná mest tíu stiga forystu á upphafsmínútunum, en heimamenn eru snöggir að jafna það og komast yfir sjálfir, munurinn fjögur stig í hálfleik, 52-48.

Stjarnan gerir svo áfram vel í upphafi seinni hálfleiksins. Bæta jafnt og þétt við forystu sína og eru mest 21 stigi yfir í þriðja leikhlutanum. Gestirnir ná þó nokkuð góðu áhlaupi á þá á lokamínútum leiksins. Skera forskotið niður og komast 5 stigum næst heimamönnum á lokamínútunum. Nær komast þeir þó ekki og undir lokin siglir Stjarnan enn einum sigrinum í höfn, 104-98.

Bestur í liði Stjörnunnar í kvöld var Hilmar Smári Henningsson með 27 stig og 6 stoðsendingar. Þá bætti Orri Gunnarsson við 28 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir Grindavík var DeAndre Kane atkvæðamestur með 26 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Honum næstur var Devon Thomas með 19 stig og 8 stoðsendingar.

Eftir leikinn er Stjarnan enn taplaus í efsta sæti deildarinnar með fimm sigra á meðan Grindavík er í 4. til 5. sætinu með þrjá sigra og tvo tapaða leiki.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta

Fréttir
- Auglýsing -