Körfuknattsleikdeild Breiðabliks hefur gengið frá ráðningu Hildar Sigurðardóttur sem þjálfara meistarflokks kvenna. Tekur hún til starfa þann 1. júlí næstkomandi en ráðningin er til þriggja ára.
Hildi þarf ekki að kynna frekar enda hefur hún verið einn besti leikmaður í íslenskum körfubolta um árabil. Hildur lék að mestum hluta með KR og Snæfelli á sínum ferli og lék rúmlega 280 leiki í efstu deild. Varð hún m.a. fimm sinnum Íslandsmeistari með þessum liðum og var valin leikmaður ársins 2014 og 2015. Þá er hún sá leikmaður sem hefur leikið flesta landsleiki, eða 79 talsins. Hildur er íþróttafræðingur að mennt.
Stjórn körfuknattsleikdeildar Breiðabliks lýsir yfir mikilli ánægju með ráðningu Hildar og hlakkar til samstarfsins.
Með þessari ráðningu er því ljóst að Lárus Jónsson mun einbeita sér alfarið að þjálfun meistaraflokks karla, ásamt því að taka að sér fleiri verkefni er varða starf deildarinnar.