Hildur Sigurðardóttir verður ekki með Snæfell í kvöld þegar Hólmarar heimsækja Hamar í Frystikistuna í Hveragerði. Hildur lenti í vandræðum með bakið á sér í síðasta leik og því ekki með í leik kvöldsins.
Hildur sagði í snörpu spjalli við Karfan.is að um væri að ræða einhverskonar tognun eða eymsli í baki og festingum þar í kring. Hún vonast þó til að vera orðin leikfær strax í næsta leik eftir þessa þriðju umferð sem fram fer í kvöld.
Það þarf ekkert að fjölyrða um skarðið sem Hildur skilur eftir sig enda einn af sterkustu leikmönnum úrvalsdeildarinnar síðastliðin ár.