Undanúrslit Geysisbikars kvenna 2020 fara fram í dag með tveimur leikjum. Fyrri leikur dagsins er milli KR og Vals, bikarmeistara síðasta árs.
KR-ingar hafa unnið tíu bikarmeistaratitla í sögunni og unnu seinast árið 2009 gegn Keflavík. Valsarar unnu aftur á móti sinn fyrsta bikarmeistaratitil í fyrra og vilja væntanlega endurtaka leikinn. Vesturbæingar hafa spilað 17 bikarúrslitaleiki gegnum söguna og eru því með 58.8% sigurhlutfall á meðan að Valsarar hafa aðeins tvisvar farið í bikarúrslitaleikinn og unnið hann einu sinni (50% sigurhlutfall).
Það er skemmtilegt að segja frá því að tveir núverandi leikmenn KR voru einmitt í seinasta bikarmeistaraliði KR, þær Margrét Kara Sturludóttir og Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir. Þær voru líka með síðast þegar KR-ingar fóru í bikarúrslitaleikinn gegn Keflavík árið 2011.
Karfan ræddi við Hildi Björgu Kjartansdóttur á blaðamannafundi fyrir bikarvikuna. Hildur tók seinast þátt í bikarkeppninni árið 2014 þegar hún og Snæfell lutu í lægra haldi fyrir Haukum í úrslitaleiknum í höllinni. Viðtalið við Hildi má finna í heild sinni hér að neðan.
Leikurinn hefst kl 17:30 og skorum við á alla stuðningsmenn liðanna að mæta. Fyrir þá sem ekki komast er leikurinn sýndur í beinni á Rúv 2.