spot_img
HomeFréttirHetjuleg barátta stúlknanna ekki nóg gegn sterku liði Finnlands

Hetjuleg barátta stúlknanna ekki nóg gegn sterku liði Finnlands

Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap í dag gegn Finnlandi á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 79-71. Liðið því með einn sigur og þrjú töp það sem af er móti, en á morgun mæta þær Noregi í lokaleik mótsins.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins hafði Ísland unnið einn og tapað tveimur á meðan að Finnland hafði unnið alla þrjá leiki sína á mótinu.

Í byrjunarliði Íslands í kvöld voru Kolbrún María Ármannsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir, Bára Björk Óladóttir, Fjóla Gerður Gunnarsdóttir og Anna María Magnúsdóttir.

Gangur leiks

Íslenska liðið átti í nokkru basli með það finnska á upphafsmínútunum. Gera þó ágætlega að missa þær ekki lengra frá sér en raun bar vitni í fyrsta leikhlutanum. Fengu nokkur skot til að detta, en voru samt átta stigum undir fyrir annan fjórðung, 23-15. Sóknarleikur Íslands er nokkuð stirður undir lok fyrri hálfleiksins, en með nokkuð áræðinni vörn nær liðið að halda sér inni í leiknum. Munurinn aðeins tvö stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-36.

Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 13 stig. Henni næst var Anna María Magnúsdóttir með 6 stig.

Kolbrún María jafnar leikinn með laglegu sniðskoti í upphafi seinni hálfleiksins, 38-38 og með tveimur körfum frá Elísabetu Ólafsdóttur í beinu framhaldi kemst Ísland í forystu, 40-42. Íslenska liðið kemst ekki lengra með þetta áhlaup sitt og Finnland nær hægt en örugglega völdum á leiknum undir lok þess þriðja, staðan 58-50 fyrir lokaleikhlutann.

Í þeim fjórða helst leikurinn nokkuð jafn og er finnska liðið aðeins þremur stigum á undan þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 64-61. Leikar haldast svo jafnir fram á lokamínúturnar, en með þristi frá Elísabetu þegar tæpar tvær mínútur eru eftir kemst Ísland aftur í forystu, 68-69. Finnland nær þá að fara á 7-0 áhlaup á tæpri mínútu og leiða leikinnn með 6 stigum þegar tæp mínúta er eftir, 75-69. Einfaldlega of lítið eftir svo að Ísland næði að koma til baka úr því. Niðurstaðan að lokum sigur Finnlands, 79-71.

Atkvæðamestar

Kolbrún María Ármannsdóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 22 stig, 4 fráköst og 3 stolna bolta. Þá skilaði Elísabet Ólafsdóttir 13 stigum, 5 fráköstum, 4 stoðsendingum og 4 stolnum boltum.

Kjarninn

Frammistaða íslenska liðsins var fín í dag. Þá sér í lagi varnarlega. Varnarleikur beggja liða var reyndar nokkuð góður, en það gaf af sér ansi margar stirðar sóknir á báða bóga. Barátta stúlknanna hetjuleg, gáfust aldrei upp og þetta sannarlega var leikur allt fram á lokamínúturnar.

Hvað svo?

Lokaleikur Íslands á mótinu er kl. 10:15 í fyrramálið á íslenskum tíma gegn Noregi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Viðtöl væntanleg

Fréttir
- Auglýsing -